Ég gekk nýja leið að skrifstofunni í tilefni dagsins – fyrsti vinnudagur eftir frí – og valdi að fara niður á Strandvejen, fylgdi honum og svo framhjá ítalska veitingastaðnum á horninu. Staðurinn var lokaður, enda klukkan ekki orðin átta. Á tröppunum fyrir framan innganginn sat ungur maður sem ég kannast við og reykti sígarettu. Við hlið hans var kaffibolli merktur veitingastaðnum. Hann veifaði til mín og vildi að ég settist hjá sér.
„Morgunmaturinn,“ sagði hann og benti á kaffið. Svo klappað hann með flötum lófanum á tröppuna sem merki um að ég ætti að setjast við hliðina á honum.
„Æ, ég má ekkert vera að því að stoppa, ég þarf að vinna,“ svaraði ég. Þótt ég kunni ágætlega við unga manninn hafði ég alls ekki geð í mér til að setjast á kaffihúströppu svona snemma morguns til að spjalla við hálf ókunnugan mann. Ég er ekki svo félagslyndur. Ungi maðurinn tók höfnun minni ljúflega og kallaði á eftir mér: „Eigðu góðan dag!“ Hmmm. Eigðu góðan dag. Sjálfur.