Ég sakna þess sárlega að hvergi (mér vitandi) er skrifað skemmtilega, hressilega, afslappað, forvitnilega … um bókmenntir á íslensku. Ég á þá ekki við hin hefðbundnu viðtöl við rithöfunda, bókmenntagagnrýni eða bókmenntafræði á akademískum skala. Til er vefurinn Starafugl.is og þar er inn á milli eitthvað sem vekur áhuga minn, en ég hef ekki sérlega mikinn áhuga á bókagagnrýni sem er það efni sem er mest áberandi á vefnum.
Ég minnist á þetta hér þar sem ég gerði mér í gær grein fyrir að ég les meira um fótbolta en bókmenntir. Og það eru algerlega einskis nýtar fréttir um fótbolta sem ég les. Fótboltafréttir eru alls staðar aðgengilegar þótt yfirleitt sé ekkert á þeim að græða. Ég les um hverjir eru meiddir og geta ekki spilað næsta leik, hverjir verða hugsanlega keyptir eða seldir og svo framvegis. Ég er meira segja með app á símanum mínum með fréttum um fótbolta sem ég les stundum. Fótbolti er vinsæll. Þess vegna er skrifað svona mikið um fótbolta. Það er skrifað svo mikið um fótbolta og þess vegna er fótbolti vinsæll. Ekki er óvitlaust að álykta að hægt sé að auka vinsældir bókmenntanna og auka áhuga á þeim með því að skrifa meira um bókmenntir. Ég er sjálfur svo sannfærður um að bókmenntir séu stór gleðigjafi og geti aukið vellíðan, hamingju, gleði í lífi hvers manns. Ég þekki sjálfur svo vel þessa fullnægjandi tilfinningu sem bækur og bókmenntir geta veitt.
Það var þess vegna sem ég einu sinni íhugaði ég að búa til app með samskonar bókmenntafréttum og er á fótbolta-öppunum; þar áttu að vera daglegir bókmenntamolar, hressilegir og uppörvandi. Ég spurði félaga minn, tölvufræðinginn, hvort þetta væri gerlegt að búa til slíkt app. Jú, jú, það var bara dálítið vesen. Ég nenni ekki veseni og því varð ekkert út þessu. En mér finnst hugmyndin eiginlega góð að vera með bókmenntamola-app í símanum sínum – skemmtifréttir úr heimi bókmenntanna í einu appi. Yo!