Fyrir nokkrum dögum var mér sagt frá rithöfundi. Frásögnin þótti mér nógu athyglisverð til þess að ég er enn að hugsa um söguna mörgum sólarhringum eftir að ég heyrði hana. Sagan er svona: Höfundurinn hafði gefið út eina skáldsögu, nokkrar ljóðabækur og einskonar ritgerðasafn. Hann hafði fengið ágætar viðtökur fyrir bækur sínar. Sumar bækurnar höfðu verið tilnefndar til verðlauna og þeir fjölmiðlar sem birtu bókagagnrýni höfðu sýnt bókum hans nokkurn velvilja, jafnvel meira en það. En því fleiri bækur sem hann gaf út fannst honum þögnin í kringum bækurnar hans dýpri og þykkari. Kunningjar hans og vinir voru hættir að tala við hann um bækurnar, ljóðin og skrifin. Það sótti að honum sá grunur að öll hans vinna, öll sú mikla yfirlega sem ritsmíðin krafðist af honum væri sóun á tíma og kröftum. Árið 2018 gaf hann út bók sem honum þótti sú albesta af öllum þeim sjö bókum sem hann hafði skrifað og fengið útgefnar; hann var satt að segja töluvert ánægður með árangurinn og fannst hann bæði endurnýja sig, koma á óvart með vali á umfjöllunarefni og efnistökum. Bókin fór í bókaverslanir, einhver eintök voru seld, flest bókasöfnin keyptu eintak og einn ritdómur birtist í dagblaði, vinsamlegur eða segir maður velviljaður eins og nánast allir ritdómar eru orðnir. Sjálfur sagði hann ítrekað frá bók sinni á facebook og hann fékk verðskulduð likes. Hmmm! hugsaði rithöfundurinn. Var þetta árangur erfiðisins?
Bókavertíðin leið. Nýtt ár rann upp en bókahöfundurinn var bæði dapur og leiður, sorgmæddur, vonlaus og þungur. Hann lifði (horlífi) af því að skrifa, og hann lifði (horlífi) fyrir að skrifa. Skrifin voru honum allt. Í að minnsta kosti áratug hafði rithöfundarsjóður haldið sinni mildu verndarhendi yfir honum í nokkra mánuði ár hvert, stundum meira að segja í heilt ár. Tómleikatilfinning sótti á hann, en hann þráaðist við og hélt áfram að sitja á rassinum og skrifa. Nú á vormánuðum var enn ein bók tilbúin til útgáfu. Forleggjari las handritið hans, hældi skrifunum og taldi að bókin yrði enn eitt risaskref fram á við; hann hafði aldrei skrifað jafngóða bók. En samt hikaði höfundurinn. Átti hann að senda þessa ritsmíð út á markaðinn bara til að mæta hinu fyrirsjáanlega fálæti. Allt varð skyndilega svo tilgangslaust. Til hvers var allt þetta, hafði þetta einhverja þýðingu yfirleitt? Honum fannst í sannleika sagt skrif sín hefðu mikla þýðingu, gildi, merkingu og væri meira en verðugt framlag til þess listformsins sem hann stundaði af svo miklum áhuga. En hann gat ekki hugsað sér að fara í gegnum enn eina bókavertíð með öllum sínum væntingum til þess eins að mæta vinsamlegri þögn. Hann gat ekki lengur hugsað sér að þjást fyrir skrif sín og verða aftur fyrir hinum sáru vonbrigðum sem útgáfu bókar fylgdu.
Höfundurinn lagðist undir feld (hann fór meira að segja aleinn með feld sinn í sumarbústað langt upp í sveit í nokkra daga). Vikum saman kraumaði í heila skáldsins. Hvað átti hann að gera? Átti hann bara hætta við þessa bók, fara á sjóinn og hætta þessu vanþakkláta skrifpuði eða var önnur fær leið fyrir mann eins og hann, bókahöfund á miðjum aldri. Ætti hann einfaldlega að breyta um nafn, kyn og aldur og gefa sig út fyrir að vera ung kona, byrjandi á leikvelli bókmenntanna. Það var ein leið. Honum varð hugsað til Ellene Ferrante sem hafði tekist að halda kyni, aldri, húðlit, kynhneigð og útliti sínu leyndu. Honum varð hugsað til Stellu Blomkvist, Lars Kepler og til allra þeirra sem höfðu gert tilraunir með að frelsa höfundinn frá sjálfu skáldverkinu. Honum hugnaðist þetta bara alls ekki.
Hann velti fyrir sér að spyrja annan mann – sem hann kannaðist við og hafði aldrei skrifað bók en var þekktur afreksmaður í íþróttum – hvort hann mætti fá lánað nafnið hans utan á nýju bókina hans. Hann sá fyrir sér viðbrögð landsmanna þegar þessi þekkti afreksmaður sendi frá sér svona gegnhugsaða bók sem var stíluð af kunnáttu og listfengi; hann sem bara hefði spilað fótbolta í öll þessi ár. Það yrði vafalaust uppistand í heimi bókmenntanna! Bókin fengi án efa athygli með þessu fína og fræga höfundarnafni.
Þetta var að minnsta kosti ein fær leið til að fá viðbrögð, hugaði hann. Hann gat ekki haldið áfram á þessari sömu braut og hann hafði fetað síðustu ár. Hann varð að frelsa bækur sínar undan höfundinum, þ.e. honum sjálfum. Höfundanafn hans var komið yfir síðasta söludag. Það var úrelt þótt afrakstur höfundarins, sjálft innihaldið, hafði aldrei verið betri. Umbúðirnar voru hinn stóri vandi, eitthvað þyrfti að gera við þær.
Nú er síðsumar. Sólin skín hér í Danmörku og ég horfi á karl og konu á miðjum aldri ganga hönd í hönd upp götuna fyrir framan skrifstofugluggann minn. Hann lítur brosandi á hana og segir eitthvað fyndið því konan skellir upp úr. Þau hlæja bæði, rekast inn í hvort annað á ástúðlegan hátt og ganga svo úr augsýn. „All the World is Green“ er sungið (ekki af Tom Waits) á skrifstofunni minni sem er 1000 gráður á celsíus. Það gerist margt í slíkum ofurhita.
Ég veit ekki til þess að höfundurinn hafi fundið lausn á vanda sínum. Síðast þegar ég heyrði lá handritið á skrifstofu forlagsins og var í biðstöðu. Síðast þegar ég heyrði lá höfundurinn stjarfur á sínum skáldabekk. Líka í biðstöðu.