Espergærde. Ný viðmið

Ég hef augu mín til fjallana, hvaðan kemur mér hjálp? Þessi ágætu orð komu til mín á göngu til vinnu í morgun og kannski undarlegt þar sem ég geng á hinu marflata Sjálandi. Hér eru engin fjöll þar sem augu mín geta leitað hvíldar. En hjálpin, hvaðan kemur hún?

Ég finn að ég hef verið óvenju órólegur síðustu daga, hugurinn er á yfirsnúningi án þess að ég geri mér almennilega grein fyrir hvað það er sem sækir á mig. Ég er órólegur og óeinbeittur. Og óvenju þögull hef ég heyrt heima hjá mér. Kannski sakna ég bara sumarsins.

Ég fékk bréf frá félag mínum útgefandanum í gærkvöldi. Þar var fjör. Líf og gleði í skrifunum og nú er ég boðaður til dagbókarlesturs þegar ég kem til Íslands í næstu viku. „Það bíður þín magnaður kokteill, dagbókarskrif sem setur nýja standarda, sem sagt ný viðmið, skiluðru?. Allt sem áður hefur verið skrifað í veraldarinnar dagbækur fölnar í samanburði við það sem þú færð að heyra. Ég hef verið í svakalegu stuði, þetta verður gríðarlegt.“ Ég kem til Íslands á fimmtudaginn í næstu viku og ég hlakka til.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.