Espergærde. Sjáðu öll fínu húsin sem hinir ríku og frægu eru með á sölu.

Ég las viðtal við Rachel Cusk í gærkvöldi. Rachel Cusk er kanadískur rithöfundur sem hefur búið síðustu ár í Englandi. Hún var einn af þeim rithöfundum sem skrifaði fyrir fáa lesendur en síðustu ár fór stjarna hennar að skína og nú er hún á hraðri uppleið á stjörnuhimin bókmenntanna. Það var fyrst og fremst með útgáfunni á þríleiknum Outline, Transit og Kudos að birta fór til hjá Rachel Cusk. Ég veit svo sem ekki hvað ég vill segja (sjálfum mér og öðrum) með því að byrja á að upplýsa að ég hafi lesið þetta viðtal. Ég hef enn ekki klárað eina bók eftir Rachel Cusk en á einhvern hátt er ég viss um að bækur hennar höfði til mín. Ég hef aftur og aftur byrja að lesa bækur höfundarins en svo stranda ég og kemst ekkert áfram. Ég gefst upp. Ég hætti að hafa áhuga á sögunni sem er sögð. En ég byrja alltaf aftur jafn sannfærður og áður um að Rachel Cusk eigi eftir að segja mér sannleikann sem ég leita svo ákaft að.

Kannski minnist ég á Rachel Cusk vegna þess að ég tók eftir að hún sagði í viðtalinu sem ég las að hún sé hætt að trúa á skáldaðar persónur í skáldsögum; hinn tilbúna Magnús og hina tilbúnu Þorgerði. Rachel segir að hún sé næstum hætt að geta lesið skáldsögur um skáldað fólk og búa til skáldaðar persónur fyrir bækur sínar. Þess vegna skrifar hún um sjálfa sig, eins konar minningabækur, sjálfsævisögur, eða skáldævisögur eins og einu sinni var talað um. Stundum finn ég sjálfur fyrir þessari þreytu á að lesa um skáldaðar persónur.

Rachel Cusk kemur til Danmerkur í þessari viku og tekur þátt í dagskrá Louisiana bókmenntahátíðarinnar. Ég get því miður ekki hlustað á hana þar þótt ég sé mjög áhugasamur. Ég verð fjarri þegar hún talar við gesti hátíðarinnar. Ég verð í öðru landi.

ps. stundum verð ég minna mig á að 99% heimsins hugsar ekki eins og ég, hefur ekki sömu áhugamál og dýrkar það sem mér finnst furðulega vitlaust. Ég hugsaði þetta í gær þegar ég horfði á sjónvarpið með Davíð og öldruðum tengdaforeldrum mínum sem eru í heimsókn í Espergærde. Í sjónvarpinu keyrði einhver dagskrá um ungt par sem hafði keypt ljótt hús án þess að hafa séð það (þetta er þáttaröð og nýtt par kaupir óséð hús í viku hverri á þessari sjónvarpsrás). Í þættinum er fylgst með parinu undirbúa flutning í nýja húsið og fylgst með verkamönnum sem unnu að endurbótum hússins. Það var stöðugt klippt á milli verkamannanna og hinna nýju eigenda sem endurtekið lýstu miklum áhyggjum sínum, hvort baðherbergið yrði eins og það dreymdi um, hvort pláss yrði fyrir tvo bíla í innkeyrslunni, hvort eldhúsið yrði það sem menn hér í Danmörku kalla samtalseldhús … Þetta sjónvarpsefni er kallað raunveruleikasjónvarp. Og til að segja alveg eins og er var mér ekki skemmt fyrir þessu hræðilega sjónvarpsefni, ég varð hreinlega þunglyndur á að horfa á þetta, þessa skemmtun sem 99% þjóðarinnar þykir hreint afbragð. Annað hvort er ég á villigötum eða allir hinir, hugaði ég. Ég sat yfir sjónvarpsþættinum hinum öldruðu gestum til samlætis þar til unga fólkið flutti inn í nýuppgerða húsið. Allt endaði vel (báðir bílarnir gátu verið samtímis í innkeyrslunni fyrir framan húsið).

Þegar ég fór að sofa að lokinni þessari skemmtun kom í huga mér setning sem lengi hefur fylgt mér: Hinir vitru munu skína eins og björt himinhvelfing og þeir sem beina mörgum til réttlætis verða sem stjörnur um aldur og ævi. Ætli það verði 99% þjóðarinnar sem mun skína eins og björt himinhvelfing? Hefur meirihlutinn ekki alltaf rétt fyrir sér?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.