Í gær skrifaði ég um Rachel Cusk og þreytu hennar á skálduðum persónum. Ég tók fram að ég skildi alveg hvað hún átti við. Í gær kom svo langt bréf til mín þar sem bréfritari lýsti í nokkuð ástríðufullu máli að hann væri svo sannarlega ósammála Rachel Cusk og mér: „Skáldaðar persónur, þvílík grunnhyggni. Er Bjartur skálduð persóna? Hans Castorp í Töfrafjallinu, Margarita í sögu Búlgakofs … hversu langan lista á ég að gera fyrir ykkur Cusk?“ Svona var skrifað til mín.
Ég áttaði mig á að ég hefði ekki verið sérlega nákvæmur í skrifum mínum um hugmyndir Cusk og þær hugmyndir hennar um ófullnægjandi skáldsagnapersónur sem ég lýsti mig sammála. Skáldsagnapersónurnar, sem bréfritari tíundaðar eru aldeilis lifandi; Bjartur, Castrop, Karenina… En vandinn er, eins og við Cusk erum alveg sammála um, að slíkar persónur finnur maður alltof sjaldan í skáldsögum. Maður opnar alltof oft skáldsögu þar sem maður finnur svo greinilega fyrir hinum fyrirframgefnu hugmyndum um persónu. Skáldsögur eru því miður allt of oft fullar af staðalpersónum. Maður les of fáar bækur þar sem rithöfundur megnar að skrifa eitthvað sem ekki hefur verið sagt áður eða lýsa persónum sem ekki margoft áður hafa, í staðalmynd sinni, birst á síðum fjölmargra annarra skáldsagana. Það er þess vegna sem maður verður stundum svo þreyttur á að lesa um skáldaðar persónur. En nóg um Rachel Cusk og skáldsagnapersónur.
Og hvað hef ég lært af þessu segir félagi minn alloft þegar hann hefur misstigið sig, hrasað – stærsta verkefni hans í lífinu er að vera sífellt að læra og bæta sig. Já, hvað hef ég lært? Sennilega að vanda mig betur í að lýsa hugmyndum annarra og sjálfs mín. Maður má ekki skrifa sjúskað, maður á að vanda sig. Sumir skrifa sjúskað, aðrir vanda sig þegar þeir skrifa. Þú skalt vanda þig, Snæi minn.