Espergærde. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða

Aftur miðvikudagur. Mig dreymdi Donald Trump í nótt og vaknaði blautur fyrir aftan hægra eyra. Ég opnaði augun, lá kyrr og þurrkaði með vísifingri hægri handar bak við eyrað. Ég teygði mig síðan eftir símanum mínum. Klukkan var 6:12 og fjögur SMS biðu lesturs. Hvað er núna í gangi? hugsaði ég og lagði símann frá mér. Skilaboðin les ég seinna, les þau þegar ég er almennilega vaknaður. Ég lagði höfuðið aftur á koddann og horfði upp í loftið. Inni í svefnherberginu var dimmt enda þykk gluggatjöld fyrir gluggunum. Þarna í dimmunni og í brakandi morgunkyrrðinni læddust fjórar hugsanir inn í kollinn á mér:

  1. Hefur Dónald Trump klórað mig á bak við eyrað. Ég bar vísifingur hægri handar aftur upp að eyranu, strauk bleytuna og leit á fingur mér til að sjá hvort mér blæddi. Nei, ekki blóð.
  2. Þá hlýtur þetta vera slef, eða munvatn. Slefaði hann yfir mig, maðurinn eða sleikti hann mig á bak við eyrað? Ég þurrkaði puttann í rúmlakið með hálfgerðum viðbjóði.
  3. Af hverju dreymir mig Dónald Trump og það aðra nóttina í röð? Er það út af þessum rotna raunveruleikaþætti sem ég horfði á í sjónvarpinu í fyrradag? Dónald er vissulega konungur raunveruleikastjarnanna. Því þrengir þessi hræðilegi maður sér inn í drauma mína?
  4. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða.

Þetta voru fjórar hugsanir að morgni.

Snemma í fyrramálið flýg ég til Íslands, ég hef ákveðið að verja dögunum í Hvalfirði og vera einungis inni í Reykjavík í fyrramálið og fram eftir degi á morgun til að sinna bæjarerindum mínum. En þjóta síðan upp í sveitina og vera þar.

ps. Ég fékk símtal seinni partinn í gær á meðan ég stóð yfir grillinu og steikti kjúkling fyrir kvöldmatinn. Á hinum enda línunnar var maður sem ég þekki vel og ég heyrði eiginlega strax þegar hann hóf upp raust sína að hann átti eitthvað mikilvægt erindi við mig. Og það kom líka í ljós. Hann vildi færa mér gleðifregnir, og ég varð svo sannarlega glaður yfir fréttinni. Ég lofaði að segja ekki hvað hafði gerst fyrr en síðar í haust. En ég var furðulega glaður yfir þessari frétt, líka þegar ég vaknaði í morgun og hafði hrist af mér óhugnaðinn eftir draum næturinnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.