Kastrup. Algjör rati

Ég tek fyrsta flug til Reykjavíkur og það hefur auðvitað í för með sér að ég þarf að vakna klukkan 04:00. Ég hafði ekki sofið nóg þegar vekjaraklukkan vakti mig. Ég hafði haft mikil plön um að nýta lestarferðina til Kastrup til að lesa handrit sem mér barst í fyrradag. En þegar ég settist upp í lestina og hafði komið mér makindalega fyrir í lestarsætinu í hálftómri lestinni gat ég ekki mannað mig upp til að gera annað en að horfa út um glugga lestarinnar.

Að vísu furðaði ég mig á að lestin lagði af stað frá Espergærde tveimur mínútum fyrr en lestaráætlunin mælir fyrir um. Gott að ég var ekki á síðustu mínútu, hugsaði ég þegar lestin rann af stað. Lestin er á klukkutíma fresti svo snemma morguns, eða seint nætur.

Ég var furðulega utan við mig í allan morgun, gat ekki lesið, gat ekki hugsað skýrt, ég var gersamlega í öðrum heimi. Þessi fjarvera varð til þess að ég lagði vegabréfið frá mér þegar ég tékkaði mig inn og gleymdi því. Ég rankaði við mér þegar ég heyrði kallað í hátalaranum „Mr. Arngrímsson, mr. Arngrímsson please contact informationdesk in terminal 2.“ Þar var vegabréfið mitt. Ég er algjör rati.

En nú er ég á leið til landsins og sú áætlun sem ég lagði fyrir daginn í dag, bæjarferðina, er strax farin úr skorðum þar sem ég fékk skyndilega tölvupóst í nótt frá samstarfsaðila mínum í Betsy-projectinu og nú hafði verið kallað til skyndifundar vegna heimsóknar minnar til landsins. Ég hafði alls ekki gert ráð fyrir þessum fundi í áætlunum mínum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.