Hvalfjörður. Smalinn hlustar á samtal

Mér líður eins og smala hér i sveitinni. Ég vakna við kindajarm og fuglasöng fyrir allar aldir. Rollurnar jarma í einskonar tvísöng, kalla og svara. Aftur og aftur, eins og sú sem spyr skilji ekki svarið og því spyr hún aftur þótt hin kindin svari spurningunni á sama hátt og fyrr og aftur og aftur. Þegar ég fór á fætur fór ég út á stétt til að blanda mér í samtal þessar fjórfætlinga en það var sama hvert ég horfði ég sá engar kindur, en jarmið hélt áfram.

Mig grunar að kindurnar hafi verið í landi Saurbæjar og falið sig þar niður í skurði.

Hér hafði ég góða gesti í gær. Einar Falur og aðstoðarmaður hans voru hér að taka myndir af eldhúsinu fyrir danska eldhússmiðinn. Hann langar að eiga myndir af eldhúsinu til að geta sett í bækling. Á meðan Falurinn ljósmyndaði setti ég saman grill sem kom í þúsund hlutum í kassa; IKEA-stíllinn.

Falurinn ljósmyndar í sveitinni

Ég gekk í morgun með ruslapoka niður að ruslagámnum sem stendur niður við þjóðveginn. Þetta er tíu mínútna gangur hvora leið. Nú er algjört logn í Hvalfirði og á göngu minni rakst ég á svo fínan mosastein, nokkuð þungan, sennilega hátt í tuttugu kíló. Ég ákvað að á heimleiðinni skyldi ég taka steininn með mér og setja fyrir utan svefnherbergisgluggann. Steinar með mosa eru svo fallegir og er mikil prýði af steininum þar sem hann kúrir á milli tveggja sköllóttra steina fyrir framan svefnherbergisgluggann.

Hér er mosasteinninn minn á milli tveggja sköllóttra steina.

Annars hlustaði ég á ansi athyglisverðan útvarpsþátt á göngu minni hér í sveitinni í gær, Heimskviður í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Birtu Björnsdóttur þar sem þau fjölluðu um Angelu Merkel, Mutti. Mér fannst mjög hár standard á þessum þætti, umsjónarmaður var áheyrilegur, framsetningin áhugaverð og innskotin frá viðmælendum fín. Ég var ansi ánægður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.