Ég er aftur lentur í þá andlegu klemmu að mér finnst ég varla hafa tíma fyrir neitt. Þetta er frekar óþægileg tilfinning, og kannski leggst eingöngu á þá sem finnast þeir eiga svo stutt eftir og eigi eftir að gera svo margt. Ég er ekki að meina að ég hafi misst af einhverjum ósköpum í lífinu (þó er eftirsjá í að hafa misst af atvinnumennskunni hjá AC Milan). En það sest í mann eitthvað ægilegt óþol. Það er eins og ég sé alltaf að leita að svari og ef svarið kemur ekki samstundis eða alveg strax fer ég að leita annars staðar.
Ég minnist á þetta hér þar sem ég hef ákveðið að lesa allar Linn Ullmann bækurnar (hún hefur skrifað sex skáldsögur), hlusta og lesa þau viðtöl við hana sem ég finn. Þetta er bara ein af þeim dillunum sem ég fæ. Síðasta bók Linn, Hin órólegu, er ástæðan fyrir því að ég valdi að taka höfundinn svona fyrir. Bókin heillaði mig. En vandinn er sá að þegar ég les sumar af fyrri bókum hennar finn ég ekki það sem ég leita að. Þær eru ekki eins vel samdar og Hin órólegu og þá fyllist ég þessum svakalega óróleika eins og ég sé að falla á tíma með því að velja að klára að lesa verkið sem ég hef á milli handanna.
Nú eru Móna og Agla farnar heim og nú fer ég aftur að vinna. Byrja á því að mála nýju skrifstofuna og þegar því er lokið flyt ég mína fáu hluti yfir á Gefionsbakken 11B.
ps. Mér var bent á það í gær, í skemmtilegu bréfi sem mér barst, að einn af stóru áhrifavöldunum í lífi mínu sé Janosch, barnabókahöfundurinn. Sá sem samdi bókina Ferðina til Panama. Þetta var alveg hárrétt ábending og nú ætla ég að muna það.
pps. Mér var líka bent á – í öðru bréfi – skemmtilegt viðtal við Doris Lessing sem flutt var í sjónvarpi allra landsmanna fyrir mögum árum. Það er Birgir Sigurðsson, leikskáld, sem ræðir við höfundinn. Ég horfði á viðtalið, fullur af innri spennu, og þótti það gott og áhugavert.