Það var þoka í morgun, ég hafði sest niður við baðbrúna á steyptan vegg sem afmarkar ströndina og beið þess að sólin næði að brenna sig í gegnum allt þetta þykka mistur. Sundið var spegilslétt og af og til kom fólk gangandi innan úr þorpinu í baðslopp og sandölum, birtist skyndilega út úr þokunni. Í sumum andlitum mátti enn sjá koddaförin eftir langan og góðan nætursvefn. Ég horfði á eftir því ganga eftir baðbrúnni, nema staðar við brúarendann, smeygja sér úr sloppnum, setja skónna út í brúarkantinn og líða síðan hægt niður tröppurnar við enda brúarinnar og niður í vatnið.
Fáa metra frá mér við vegginn þar sem ég sat á stóð kona og klæddi sig hægt úr blautum sundfötum. Hún skýldi nekt sinni á bak við stórt baðhandklæði. Hún klæddi sig síðan rólega í fötin sín, stutt svart pils og skyrtu, eða blússu, með hlébarðamunstri. Þegar hún leit upp brosti hún til mín.
„Hej,“ sagði hún.
Hér við baðbrúna heilsast allir.
„Hæ,“ sagði ég.
„Svakalega er mikil þoka,“ sagði hún og rýndi út á sundið. „Allt verður ósýnilegt,“ bætti hún við og hló feimnislega.
Hún byrjaði að taka saman dótið sitt og gekk svo af stað. Eftir fáa metra stoppaði hún og leit um öxl og sagði:
„Bless.“
Ég kvaddi líka.
„Bless.“
Ég ákvað að sitja aðeins lengur þarna á veggnum og bíða þess að þokunni létti og hið ósýnilega yrði sýnilegt. Eða eins og einhver sagði: „Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilegt er eilíft.“ Spurning dagsins: Hvar stendur þetta skrifað?