Espergærde. Einu sinni enn og nú með tilfinningu.

Í nótt rigndi eldi og brennisteini hér í Espergærde. Svo kröftugar voru þrumurnar og svo margar og bjartar voru eldingarnar að mér var algerlega ómögulegt að sofna aftur eftir að hafa vaknað við þessi læti. Það gerði ekkert til, mér fannst ég svo sem ekkert þreyttur og settist því bara upp og hélt áfram að lesa í handriti sem mér barst á dögunum frá gömlum félaga.

Í nótt las ég lýsingu hans á samtali sem höfundurinn átti við fremur þekktan íslenskan skemmtikraft – eða er skemmtikraftur neikvætt orð um menn sem leika og syngja tónlist á sviði og hafa hæfileika til að skemmta áheyrendum? – þar sem eitt af samtalsefnunum var One More Time With a Feeling. Ég gat alls ekki munað hvað þetta One More Time With a Feeling var … bók, kvikmynd, hljómplata, lag … ? Ég gat bara ekki munað það. Ég neitaði að googla og var ákveðinn í að virkja heila minn, æfa hann og styrkja; hugsa þar til ég myndi hvað One More Time With a Feeling var. Og klukkan 11:01 kom það. Nú veit ég. Yo!

ps. ég flutti í morgun út af skrifstofunni minni og inn í nýju skrifstofuna. Hér koma tvær myndir af flutningunum.

Nýja skrifstofan. Hingað inn.
Gamla skrifstofan. Héðan út.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.