Espergærde. Afleiðingar kvölddrykkju.

Yfir smábænum mínum var þessi skínandi fallegi regnbogi þegar ég gekk til vinnu í morgun; þrælskarpur og í réttri litaröð, gulur rauður grænn og blár. Það var eins og að búa í ævintýrabæ að ganga inn í morguninn með svona glæsilegan regnboga yfir sér. Það eru þó ekki ævintýralegar hetjudáðir eða stórafrek sem ég get gortað af að hafa unnið þessa tvo helgardaga sem eru að baki. Göngutúrar, garðvinna, málningarvinna, innrétting á nýrri skrifstofu, lestur, horft á og greint af kunnáttu leik Arsenal og Tottenham, eldað mat (kjúklingaréttur á laugardegi, grillaðir hamborgarar á sunnudegi.)

Ég er maður í blóma lífsins. ég er brosmildur, þægilegur í umgengni og reyni að vera hjálplegur. Ég legg mig sem sagt fram en eins og aðrir hrasa ég og geri furðulegustu gloríur. Í gær fékk ég þá dillu í höfuðið að mig langaði svo mikið í Pepsi Max og eins og auli lét ég undan þessari bráðalöngu minni og keyrði á hendingskasti út í búð áður en hún lokaði og borgaði fyrir kippu af Pepsi Max. Klukkan var að verða ellefu þegar ég svolgraði í mig Pepsi og fór svo í háttinn til að grípa í bók.

Ætli ég hafði ekki sofnað við miðnætti eftir að hafa lesið í tæpan klukkutíma. Nóttin lagðist yfir bæinn minn, gluggarnir á svefnherberginu voru opnir svo nóg var af súrefni og ég svaf því friðsælum svefni. Yfir mér var værð. Vekjaraklukkan tifaði í næturmyrkrinu, annars var allt kyrrt. En svo gerðist það. Klukkan var hálf fjögur og ég vaknaði með andfælum, gersamlega í spreng eftir alla Pepsi Max-drykkjuna. Ég flýtti mér hálfsofandi fram úr til að pissa – en mér til stórrar undrunar ætlaði bunan bara aldrei að hætta, þvílíkur beljandi foss, þvílík ótæmandi lind. Þarna hef ég örugglega staðið í fimm mínútur við þessa óvæntu næturiðju. Ég var því gersamlega orðinn glaðvakandi þegar ég loks lagðist aftur á koddann og gat auðvitað ekki sofnað. Eftir nokkra stund settist ég því upp og fór að lesa bók sem ég les þessa dagana. Bókin fjallar meðal annars um viðureign manns við sjálfan sig og notkun hans á tímanum. Við þessi vandræði mannsins tengdi ég; í hvað getur maður leyft sér að nota tímann. Ég skildi líka samviskubit höfundar yfir að nota of langan tíma í eitthvað sem hugsanlega er einskis virði. Klukkan var orðin sex þegar ég slökkti á iPadinum og lagðist aftur til svefns. Ég steinsofnaði og svaf djúpt þar til vekjaraklukkan hringdi 6:25. Þetta var nú sagan af afleiðingum þess að drekka Pepsi Max seint að kvöldi.

Nú kemur bókmenntamoli eða öllu heldur frétt um nýjustu hreyfingar innan forlagsbransans: Fyrir nokkrum mánuðum stofnaði norski milljarðamæringurinn, framkvæmdamaðurinn og hótelkeðjueigandinn Petter Stordalen bókaforlag í Noregi og fékk til liðs við sig hinn vinsæla glæpasagnahöfund Jørn Lier Horst. Þetta kom mörgum á óvart því Petter Stordalen er hvorki þekktur fyrir bókhneigð né áhuga á hinu göfuga listformi bókmenntum. En hann heillaðist af útgáfubransanum og nú hafa þeir félagar Petter og Jørn keypt til starfa margt af besta fólki norska bókabransans, laðað bransans mesta hæfileikafólk til sín með loðnum lófum og auk þess hafa þeir gleypt með gylliboðum hvert smáforlagið á fætur öðru. Þetta hefur að sjálfsögðu vakið mikinn taugatitring í Noregi.

Í ár beindi Petter Stordalen sjónum sínum til Svíþjóðar. Hann yfirtók Bazar forlagið og hefur nú stór áform um bókaútgáfu í Svíþjóð. Sænski bókabransinn bíður nú með öndina í hálsinum og óttast það versta. Það er fíll inni í postulínsbúðinni. Nýjasta útspil Petters er að nú vill hann semja við þá Larsson-feðga, föður og bróður Stig Larssons, um að fá nýjan höfund til að skrifa enn eitt framhald af Millenium-seríunni sem Stieg Larsson gerði svo fræga og David Lagercranz fylgdi eftir með því að skrifa þrjár viðbótarbækur um Lisbeth Salander eftir að Stieg dó. Þetta hefur auðvitað sett mikinn skjálfta í forlagsheiminn í Svíþjóð, sérstaklega vegna þess að bókaforlagið Norstedts, sem hingað til hefur gefið út allar Millenium-bækurnar, fær ekki útgáfuréttinn. Larsson-feðgarnir hafa sagt að þeir munu flytja útgáfuréttinn til þess sem bíður flestu peningana og þar er Petter Stordalen á heimavelli. Norstedts, sem nú er í eigu Storytell, hefur lýst yfir miklum vonbrigðum. Forlagið uppgötvaði Stig á sínum tíma og hefur gert bækurnar að mikilli peningavél (sem feðgarnir og forlagið hafa notið góðs af); prentað milljónir eintaka og selt útgáfuréttinn á bókunum um allan heim. Þeim finnst súrt að þeim sé ekki sýnd nein tryggð eða launuð vel unnin störf.

Rithöfundurinn David Lagercranz hefur hins vegar boðað að hann muni ekki skrifa fleiri bækur í Millenium-seríunni og ætlar þess í stað sjálfur að semja þrjár glæpasögur í anda Sherlock Holmes. Petter Stordalen hefur þegar þefað uppi áform Davids og mun hafa boðið honum ævintýralega háa fjárhæð í fyrirframgreiðslu til að tryggja sér og fyrirtækjum sínum í Noregi og Svíþjóð útgáfuréttinn á þessum nýju Sherlock Holms-look-a-like bókum. Munu stórforlög á Norðurlöndum nú hafa áform um að standa saman gegn Petter Stordalen til að koma í veg fyrir að hann gleypi girnilegasta bitann sem í boði er á kjötfati bókaforlagana um þessar mundir. Þetta var bókmenntamoli og saga um mátt peninga í heimi bókaútgáfu.

Fyrsti vinnudagur á nýrri skrifstofu. Ég birti mynd í tilefni dagsins. Eins og sjá má vantar mig kaffivél.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.