Espergærde. Gífurlega eða gríðarlega

Ég hef oft sagt það, bæði upphátt, í hljóði – og líka á prenti – að fátt sé leiðinlegra en að hlusta á menn (hér nota ég orðið í klassískri merkingu yfir karla og konur) segja frá eigin draumum. En fyrir þessa afstöðu var ég skammaður í gær. Og það þurfti heimsfrægan barnabókahöfund til að ég skildi að ég var villigötum. „Svona getur maður ekki sagt,“ sagði barnabókahöfundurinn bæði hissa og hneyksluð. „Þetta getur maður bara ekki sagt. Í allt að þriðjungi lífsins er maður undirseldur draumum sínum. Þetta er gífurlega mikilvægur hluti lífsins, gífurlega mikilvægt til að skilja sjálfan sig (hafi maður áhuga á því) og gífurlega áhugaverður vitnisburður um hugsanagang manns.“ (Ég veit ekki hvort hún notaði orðið gífurlegur eða gríðarlegur því þetta er þýtt úr útl-ensku).

En ég minnist á þetta hér þar sem mig dreymdi í rauninni áhugaverðan draum í nótt. Úlfhildur Dagsdóttir, af öllum, hundskammaði mig fyrir lélegan samstarfsmóral. (Í draumnum unnum við saman við blaðamennsku hjá The New York Times-dagblaðinu). Nú ætla ég ekki að túlka drauminn, ég hef þó velt vöngum á göngunni til vinnu í morgun. En ég nefni þetta hér, því það er mikilvægt, að ég hef fyrir skömmu enn á ný gerst áskrifandi að New York Times-dagblaðinu – ég styð líka The Guardian – því mér finnst blaðamennska í svona háum gæðaflokki svo ótrúlega þýðingarmikil.

Ef á Íslandi væri til dagblað – þó ekki nema bara vefdagblað – sem sinnti menningu (bókmenntum, kvikmyndum, tónlist, myndlist, arkitektúr, leiklist …) á sómasamlegan hátt mundi ég hiklaust, þ.e. án þess að hika, gerast áskrifandi eða/og styrkja blaðið með alfrjálsu framlagi úr eigin vasa.

ps. Ég fékk miða á Lera Lynn-tónleika í Kaupmannahöfn þann 17. nóvember 2019. Yo!

pps. Ég er búinn að fá kaffivél á skrifstofuna, fínan lampa og nú er líka hátalarinn tengdur. Lera Lynn leikur og syngur. Er þetta ekki gott?

ppps. Sus kemur úr ferð sinni frá Íslandi í dag (hún hefur verið í nokkra daga með handboltavinkonum sínum í Hvalfirði). Í fjarveru hennar hef ég lagt í vana minn að setjast upp um miðja nótt og lesa fram undir morgun. Þetta gengur ekki þegar maður er ekki lengur einn í rúmi. Nei.

Hér kemur ný mynd frá nýju skrifstofunni; nú með lampa og kaffivél.

Skrifstofuhorn með lampa og kaffivél

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.