Espergærde. Saltbragð hörundsins.

Þegar ég spilaði fótbolta með yngri flokkum Fram var ég markvörður. Ég var markvörður í liði Fram í 5. flokki og í 4. flokki. Síðar, þ.e.a.s. þegar ég varð eldri, hætti ég að spila í markinu og spilaði í vörninni. Enn síðar, á old boys árunum, spilaði ég í miðju varnarinnar með fótboltaliðnu hér í Espergærde. En kvíði hefur nær alltaf verið furðulegi fylgifiskur fótboltans hjá mér, leikkvíðinn. Þessi angist hefur verið svo mögnuð að þegar ég, á gamals aldri, átti að spila leik með old boys liðinu mínu um kvöld gat Sus fundið á mér yfir morgunkaffinu að það var fótboltaleikur framundan. „Er leikur í kvöld, Snæi minn?“ spurði hún.
„Já,“ svaraði ég.
„Ég finn það á þér, ég finn það í loftinu,“ sagði hún.

Ég hef verið svo þungt haldin af þessum sálarkvölum fyrir leiki að ég staðið sjálfan mig að því (þegar ég var barn) að biðja í hljóði að dómarinn mætti ekki svo leiknum yrði aflýst. Ég er alltaf svo hræddur við að klúðra, hræddur við eigin mistök. En þessa kvöl hef ég orðið að þola til að geta tekið þátt í því sem mér þykir eitt af því skemmtilegast í lífinu; að spila fótbolta.

Eina undantekning frá þessara taugaveiklunarþjáningu minni vegna fótboltans eru árin mín í vörninni hjá AC Milan þar sem ég spilaði með þeim Maldini og Nesta. Þau ár ríkti bara gleði, gleðin við að spila á San Siro, gleðin við dagsferðirnar á hvítu vespunni upp í fjöllin með kærustuna á sætinu fyrir fyrir aftan mig, gleðin við að tala um ljóðlist og Calvino á ítölsku við Maldini og spila tennis við hann, gleðin við að hjálpa Nesta við að sætta sig við hlutskipti sitt að sitja á bekknum og fylgjast með okkur Maldini spila saman í hjarta varnarinnar … enginn kvíði bara gleði.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til að rifja upp þessa taugaveiklun mína hér á síðum Kaktusins, ég fór bara að hugsa um þetta þegar ég gekk til vinnu í hádeginu í gær. Ég hafði hitt konu á göngunni sem sagðist hafa tekið sér frí frá vinnu þennan dag því hún væri svo kvíðin, hún hefði einfaldlega ekki komist til vinnu vegna kvíða. Þannig væri líf hennar eitt kvíðahelvíti út af vinnunni. Úff, aumingja konan, hugsaði ég. Gott að þetta er ekki ég. Og svo fór ég að hugsa um þessi fótboltaár og leikkvíðann.

Ps Mér þótti Saltbragð hörundsins alltaf svo flottur bókatitill.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.