Espergærde. „Ugens bog“

Í gærkvöldi vaknaði sú hugmynd að nýta gluggann á nýju skrifstofunni – þetta er gamall búðargluggi – til að kynna „ugens bog“ eða bók vikunnar. Hvern miðvikudagsmorgun er sett fram ný bók út í gluggann; bók vikunnar. Fyrsta bókin sem prýðir gluggann minn er Max, Mischa & Tet-offensiven, eftir hinn norska Johan Harstad. Nú verður spennandi að fylgjast með hvernig þessi gjörningur þróast.

Þetta er auðvitað bara í gamni gert, prívatskemmtun fyrrum forleggjara, og ekki nokkur maður á göngu fram hjá skrifstofunni minni mun skilja hvað þetta á að þýða: „Bók vikunnar!? Hvað er í gangi inni á þessari skrifstofu?“

Detta mér í hug, af því tilefni, hin fleygu orð: „Heimskinginn keppir ekki að hyggindum heldur að gera skoðanir sínar kunnar.“ Yo!

ps. Nú hafa þrír vegfarendur, allir með hund í bandi, gengið framhjá glugganum mínum sem svo fagurlega er skreyttur með bók vikunnar. Ég fylgist nákvæmlega með viðbrögðum þeirra þegar þeir arka framhjá glugganum. Ég verð því miður að tilkynna að enginn hefur tekið eftir þessari glimrandi fínu útstillingu, enginn hefur haft augun af hundi sínum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.