Espergærde. Vú-hú öfugt hlutfall

Járn brýnir járn og maður brýnir mann. Þetta er satt og þótt ég hitti ekki alltaf svo marga í mínu hversdagsstússi fæ ég daglega bréfasendingar sem skerpa mig og brýna. Og ég er hnífskarpur þessa dagana. Ekkert stoppar mig þegar ég sest niður til vinnu og ég hreinlega flýg áfram með verkefni mitt.

Síðustu daga hef ég líka lesið einhver ósköp. Ég er í gangi með Linn Ullmann verkefnið að lesa allar bækur hennar. Ég hef nýlokið við að spóla í gegnum bók Ruth Ware, The Death of Mrs Wasterway, þar áður spændi ég í mig bækur Rachel Cusk, og Lindu Knausgaard. Nú les ég skáldsögu eftir Delphine De Vigan, Allt eru þetta konur. Fimm konur og enginn karlmaður á leslistanum, svo ég fari nú að velta mér upp úr hlutfalli kynjanna eins og nú er svo vinsælt. Ég las til dæmis í gær, þessu til stuðnings, mikið fagnaðaróp frá bóksala í Kaupmannahöfn yfir að af sex tilnefndum bókum til hinna virtu Boooker-verðlauna eru fjórar skrifaðar af konum. Vú-hú.

Stundum spyr ég sjálfan mig „Hver skrifar þegar ég skrifa.“ Þetta er klassísk spurning sem m.a. Stephen King setti fram fyrir löngu, að ég held í tilefni af útgáfu bókarinnar Misery. Í mörg ár hef ég skrifað undir dulnefni, Ásta S. (og þá er það kona sem heldur á pennanum, grín), þýtt bækur á bak við þetta nafn, gert gífurlegt magn af bókakápum, skrifað bókafréttir (svokallað bókmenntamola) og svo framvegis. Kannski hef ég valið að vinna undir öðru nafni en mínu eigin vegna þess að það krefst hugrekkis að skrifa, að opna og sýna hver maður er og því er betra að hafa varnarskjöld, annað nafn til að skýla sér á bak við. En nú hef ég æft mig að skrifa í mínu eigin nafni, og nú er ég klár til að takast á við þann ótta að koma sjálfur fram, sýna eigið andlit og hver maður er.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég sendi frá mér þýðingu í gær og í stað þess að skrifa: Ásta S. Guðbjartsdóttir þýddi, setti ég mitt eigið nafn á titilsíðu bókarinnar. Ég tók bara allt í einu skyndiákvörðun þegar ég þurfti að skrifa nafn þýðandi.

Já, það er nefnilega það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.