Espergærde. Ótakmarkaður farareyrir.

„Gangið inn um þrönga hliðið,“ sagði maðurinn með gula hjálminn sem beindi umferð gangandi vegfarenda framhjá verkamönnum sem unnu við að skipta um vatnsrör eða skólprör við fjölfarna götu hér í bænum í gær. Mér varð litið á manninn til að reyna að skilja hvort hann væri að vitna í eitthvað sérstakt eða hvort hann meinti bókstaflega það sem hann sagði. Ég sá ekkert sem benti til annars en hann stæði við hvert orð. Hann vísaði veginn og beindi mér eftir mjóum stíg (ekkert hlið sá ég) fram hjá hinum vinnandi mönnum.

Já, hugaði ég og hélt áfram göngu minni. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem hann finna.

Kannski var ástæða þess að þessi upphafna hugsun leitaði á mig þarna í regnvotum hversdeginum á leið til innkaupa að í gær streymdu til mín óvæntar kveðjur. Og nú er ég ekki að ýkja, því kveðjurnar voru sannarlega margar. Mér kom gersamlega í opna skjöldu að mér skyldi óskað til hamingju með að vera búinn að losa mig undan nafni Ástu S. eins og ég sagði frá hér á Kaktus í gær. „Tímamót,“ sögðu að minnsta kosti þrír bréfritarar. „Það var kominn tími til,“ sagði annar o.s.frv. Í mínum huga var þetta alls ekki svona dramatískt.

Viðbrögðin komu mér sem sagt verulega á óvart. Hingað til hefur það verið óopinbert leyndarmál að ég og Jón Karl Helgason stæðum á bak við nafn Ástu S. Við höfum notað nafn hennar í fjölmörg ár, bæði þegar við unnum saman á bókaforlaginu Bjarti og síðar, og það hefur verið allmörgum kunnugt. Ég hef því ekki beint falið mig á bak við nafnið eins og mátti kannski skilja á skrifum mínum í gær. Réttara væri að segja að ég notaði það sem örlítið skjól.

En það var annað sem truflaði mig enn meira vegna þessara viðbragða. Af Kaktusskrifum gærdagsins hefði jafnvel mátt halda að ég einn hefði notað nafn Ástu S. og ég einn hafi búið til allt það efni sem eignað er Ástu. Þannig var það ekki. Allt það besta og áhugaverðasta sem Ásta S. hefur sent frá sér er verk Jóns Karls. Þau skipti sem Ásta S. hefur náð einhverju flugi hefur Jón Karl stýrt pennanum. Og það eru heldur engar ýkjur.

„Ég geng einn ég fylgi konunni með ljósið.“ Hver sagði þetta og af hvaða tilefni? Þetta er bókmenntagetraun dagsins í tilefni af tímabundnu brotthvarfi Ástu. Verðlaun: Ferð til Parísar, aðra leið. Og ótakmarkaður farareyrir. Dregið verður úr réttum lausnum. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.