Espergærde. Leslistinn.

Einu sinni í viku (á föstudögum) fæ ég tölvupóstssendingu sem kallast Leslistinn. Þar er vikulega dregið saman það sem stjórnendur listans telja athyglisvert út heimi lista, menningar og fjármála. Þetta finnst mér mjög gott framtak hjá þessum ungu mönnum sem standa á bak við listann. Þetta hlýtur að krefjast töluverðrar vinnu að safna vikulega saman svona fínum lista yfir áhugavert lesefni.

Ég minnist á þetta hér þar sem í gær barst mér nýr Leslisti. Mér finnst ég oft græða nokkuð á meðmælum og ábendingum listans. Að minnsta kosti les ég alltaf eitthvað af því sem þessir ágætu félagar benda á. Í gær var mælt með bókinni Stílæfingar eftir Raymond Queneau. Þetta er klassískt verk sem hefur komið út í ótal þýðingum, en það var fyrst í ár sem bókaforlagið Ugla gaf þessa bók út í íslenskri þýðingu Rutar Ingólfsdóttur. Ég flýtti mér að athuga hvort bókin væri líka útgefnin sem rafbók á íslensku. Það er hún því miður (fyrir mig) ekki og því varð ég að kaupa dönsku útgáfuna. En þetta er sem sagt eitt af þeim dæmum sem Leslistinn nær að hrífa mig til að kaupa eitthvað, lesa eitthvað eða hugsa eitthvað sem ég hef ekki áður hugsað um. Ég mæli sem sagt með Leslistanum.

Það yrði auðvitað líflegt menningarlíf Íslendinga ef fleiri hugumstórir einstaklingar, eins og þessir ágætu Leslistamenn, gæfu sér tíma og notuðu orku til að lyfta listáhuga þjóðarinnar.

ps það eru auðvitað miklu fleiri en Leslistinn sem ýtir undir menningaráhuga Íslendinga, ég nefni bara Leslistann því hann hafði bein áhrif á mig í gær.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.