Espergærde. Sagan sem ég fékk aldrei að heyra.

Ég hef nokkuð velt fyrir mér orðum manns sem ég átti samtal við í afmælisveislu í fyrrakvöld. Ég þekkti manninn ekki, en ég vissi vel hver hann var. Ég hafði tekið eftir þessum feita manni með lítil, silfurspanga gleraugu tala við konu. Konan þótti mér af einhverjum ástæðum skelfilega leiðinleg. Ég hafði ekki einu sinni heyrt hvað hún sagði eða heyrt rödd hennar það var bara hvernig hún hreyfði sig þegar hún talaði og hvernig hún brosti sem fór í taugarnar á mér. Og svo fóru gleraugun hennar líka í taugarnar á mér. Ég get verið alveg ferlegur. En hún fór sem sagt bara í taugarnar á mér án þess að ég gæti á nokkurn hátt gert grein fyrir hvers vegna hún pirraði mig þessi kona. Hún var víst blaðamaður.

Ég fylgdist með samtali mannsins og konunnar þar sem ég sat nánast andspænis konunni og feiti maðurinn sat einu sæti frá mér við enda borðsins. Það var gífurlega mikið bergmál í rýminu og fjöldi fólks samankominn og því heyrði ég ekki orð af samtali þessara tveggja. Að vísu virtist þetta meira og minna vera eintal konunnar þar sem feiti maðurinn sat með stóran haug af kjöti á diski fyrir framan sig og borðaði í ró og næði á meðan konan lét dæluna ganga. Af og til sá ég að hann skaut inn einu og einu orði.

Síðar um kvöldið kom hann til mín þessi feiti maður, sem er víst orðinn valdamesti maður danska bókmenntaheimsins.
„Sæll,“ sagði hann um leið og hann settist við hliðina á mér. „Loksins segi ég bara. Við höfum verið í sama bransa í mörg, já, mörg ár og nú fyrst tölum við saman og þá ert þú hættur.“
„Sæll,“ sagði ég. Ég var satt að segja hálffeiminn við þennan stóra og mikla mann. Hann var svo voldugur.
„Nú þekkjumst við ekkert þannig að það er kannski ekki við kurteislegt að tala um dauða, mannvonsku, kynlífi eða annað sem þykir ekki við hæfi að tala um.“
„Nei,“ sagði ég án þess að skilja hvert maðurinn var eiginlega að fara.
„Ég var bara að hugsa um, áður en ég settist við hliðina á þér, hvernig ég ætti að hefja samtal okkar. Við þekkjumst ekki en við höfum verið svo lengi í kringum hvorn annan … við höfum sveimað í kringum hvorn annan. Og hvernig á maður þá allt í einu að hefja samtal?“
„Já, það er góð spurning,“ sagði ég aumingjalega.
„Ég hafði hugsað mér að segja þér stutta sögu, mikilvæga sögu um okkur tvo … þegar maður segir sögu getur maður leyft sér að segja frá dramatískum hlutum. Það er nefnilega í sögunum þar sem allt hið áhugaverða gerist. Við þurfum að segja sögur.“
Ég var alveg sammála þessum stóra manni en mér fannst þetta dálítið brött innkoma. Ég var ekki vanur að hefja samtöl við ókunnuga á þennan hátt.
„Ég held að fólk sé að missa af svo miklu þegar það ímyndar sér að lífsins stærsta skemmtun sé að spila Playstation eða glápa á Netflix til að fá bestu sögurnar um það hvernig það er að vera manneskja og hvernig er að búa í samfélagi við annað fólk og svo framvegis. Þetta er nefnilega stór misskilningur. Það er í bókmenntunum, í sögunum, þar sem við græðum mest …“

Allt í einu, undir formála að sögu sem ég var orðinn spenntur að heyra, kom konan með gleraugun og tók orðið svo ég fékk aldrei að heyra söguna sem maðurinn ætlaði að segja mér. Stóri maðurinn þurfti skömmu síðar að fara heim þar sem konan hans varð veik, fór að kasta upp (ekki af drykkju) og þau yfirgáfu samkvæmið saman.

ps. Ný „ugens bog“ er komin út í glugga á skrifstofunni minni. De urolige (Hin órólegu) eftir Linn Ullmann. Hreint stórkostlega bók. Ég sé að fólk sem á leið hér hjá furðar sig nokkuð á þessari bókarútstillingu. „Ugens bog?“ heyri ég að fólk segir við sjálft sig eða við göngufélaga sinn um leið og það gengur hjá og virðir fyrir sér bókina í glugganum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.