Espergærde. Djöfulgangur og íslenskir rithöfundar.

Kannski var spenna mín úr tengslum við tilefnið en ég rauk upp til handa og fóta þegar ég fékk tilkynningu frá Forlaginu, kynningardeild, að út væri komin ný bók Bergs Ebba, Skjáskot. Það fór straumur í gegnum mig; ég er hlaðinn, ég er alltaf að hlaða mig, bæta mig, gera mig spenntari. Og á augabragði hafði ég notað kraftinn af allri hleðslunni og fiskað VISA-kort mitt upp, flett upp á Skjáskot eftir Berg Ebba á bóksölu Forlagsins og keypt e-útgáfu bókarinnar. Klukkan var 22:30 og Ísland var nýbúið að skíttapa fyrir Albaníu í fótbolta.

Nákvæmlega 11 tímum síðar hafði ég lesið bókina, klukkan 10:30 næsta morgun (sem sagt í morgun) lokaði ég bókinni. Ég var þar að auki, á þessum 11 tímum, búinn að sofa í 6:44 mínútur, ég var búinn að drekka morgunkaffi mitt, ganga til vinnu, skrúfa saman nýjan lesstól og lesa það helsta í heimsfréttunum hjá New York Times Briefing. Sem sagt: Skjáskot er fljótlesin bók og ég er einbeittur lesari.

Þegar ég var lítill strákur hafði ég gífurlega gaman af gamlárskvöldi og öllu því flugeldadóti sem því kvöldi fylgir. Og ég lærði snemma að best væri að byrja hægt; fyrst voru kveikt stjörnuljós og maður dáðist að stjörnuformuðu neistunum sem flugu fyrir augum manns. Þetta var gaman, þetta var fjör, þetta var æðislegt. Svo kom næsta stig; Jóker-blys með sínum fjöllitu kúlum sem skutust út í loftið (það var stuð) og svona leið kvöldið með stigvaxandi djöfulgangi. Síðasta atriði kvöldsins – og þá er maður að ærast af stemmningu – var þegar Valur Pálsson (pabbi Palla) steig út og setti af stað ægilega sprengjuhátíð með svokölluðum Tívólí-tertum. Brjálæðið var svo mikið, sprengingarnar og ljósamynstrin voru svo ægileg, að það var sem skollið var á gjöreyðingarstríð yfir Álftamýrinni. Slíkur var hamagangurinn. Litla, sæta stjörnuljósið frá því fyrr um kvöldið varð harla óspennandi eftir öll Tívolí-tertu-ólætin og engum heilvita manni datt í hug að kveikja á stjörnuljósi eftir miðnætti eins fallegt og spennandi það var í upphafi kvölds. Nema kannski til að hæðast að sjálfum sér fyrir hvað maður hafði verið vitlaus yfir að þykja stjörnuljós svona æðisleg í byrjun kvölds.

Ég segi frá þessu hér þar sem mér leið aftur á þennan hátt eftir að hafa lesið bók Bergs Ebba í morgun. Bergur Ebbi er snjall og það er stuð á honum. Hann hefur bók sína af frásögn af ferðalagi hans og fjölskyldunnar á Chevrolet Suburban til Boston (frá Toronto) í tilefni af afmæli Bergs. Þetta er frábær kafli og gífurlegur kraftur í frásögninni, sem er bæði fyndin og áhugaverð. En þarna sprengir hann strax á fyrstu síðu sína stóru og öflugu Tívólí-tertu. Það er gjöreyðandi djöfulkraftur í fyrsta kaflanum, ljósadýrð og læti. Það sem á eftir kemur eru í mesta lagi Jóker-blys í samanburði við fyrsta kaflann og vekja því ekki verðskuldaða aðdáun og lotningu þess sem les þótt í sjálfu sér séu kaflarnir fyrirtak.

Að vísu þjáðist ég af nokkurri tómleikatilfinningu eftir að hafa lesið Skjáskot, það er hrært svo mikið og lengi í sömu súpunni, hring eftir hring, án þess að súpan verði betri af því. Ég gat ekki almennilega fest hönd á þessari bók. Um hvað var þetta, jú nútíminn, gervigreindin, tölvur, Facebook, Twitter og kjötheimar vs. rafeindaheimar. Nokkrar senur eru eftirminnilegar, eins og Chevrolet senan, senan með þeim bræðum á leið með diskettu til Applebúðarinnar að fá kerfisuppfærslu á Macintosh SE tölvuna sína… ég veit ekki, en allt í allt er þetta fín bók og skemmtileg og ég vona að margir lesi hana.

ps. Ég fékk áðan lítið verkefni fyrir danskt dagblað sem er með sérblað um íslenskar bókmenntir á laugardaginn. Teiknari blaðsins er búinn að teikna mynd af nokkrum íslenskum rithöfundum, SJÓN, Kalman, Auði, Einari Má … og nú vantaði nokkrar setningar úr íslenskum bókmenntum til að skreyta þessa teikningu og þá er hringt í gamla, langa forleggjarann frá Íslandi. Allt átti að gerast á næstu fimm mínútum: „Geturðu ekki bara skrifað eitthvað, manstu ekki einhverjar setningar úr íslenskum bókmenntum, bara eitthvað, bara á íslensku …“ sagði maðurinn sem hringdi. Ég var á skrifstofunni og hef ekki íslenskar bækur hér hjá mér. Nú voru góð ráð dýr. Næstu fimm mínútur notaði ég til að veiða sjö setningar. Hér er afraksturinn. Hverjir eru höfundar?

„Tíminn líður, hann fer í gegnum okkur og þessvegna eldumst við.“

„Mórauðar tóur eru svo undurlíkar steinum að furðu sætir.“

„Mamma mín og pabbi kynntust í Reykjavík árið 1975.“

„Þetta var sumarið þegar Guðjón G. Georgsson kom í fyrsta sinn til þorpsins.“

„Heldur þann versta en þann næstbesta.“

„Ekkert á jörðinni er eins yndislegt og sönn ást milli pilts og stúlku í góðu veðri um nótt á vori, þegar hestarnir eru sofnaðir í túnunum.“

„Mörður hét maður er kallaður var gígja.“

„Þegar ég kom heim frá Treptow, var maðurinn C. vaknaður og beið mín í eldhúsinu.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.