Espergærde. Að skoða samtíma sinn með fránum augum.

Að skoða samtíma sinn með fránum augum og sjá allt. Einhvers staðar hef ég lesið þessa setningu, eða heyrt, og mér datt hún í hug þegar ég gekk niður í flæðarmálið hér fyrir neðan Strandvejen. Ég get upplýst áður en lengra er haldið að sólin skein af heiðum himni, ekki bærðist hár á höfði og fáir voru á ferli svo snemma dags. Ekki nema fáeinir hjólakappar brunuðu hjá – þeir nota hverja frístund til að þeysa um á hjólum sínum – og svo voru auðvitað hundaeigendurnir með koddaför í kinnum með hunda sína í bandi í annarri hendi og svarta kúkapoka í hinni. Það er hálfgert volæði að vera hundaeigandi svo snemma morguns.
„God morgen,“ segi ég við hundaeiganda.
„God morgen,“ segir hundaeigandinn við mig.
Þetta er morgunsenan þar sem hugurinn starfar þennan morgun

Í morgunstemmningunni datt mér sem sagt þessi fína setning í hug – að skoða samtíma sinn með fránum augum – vegna þess að ég er enn að melta bók Bergs Ebba, SKJÁSKOT. Melta i huganum, eins og sagt er. Þarna á göngunni niður á strönd komst ég að þeirri niðurstöðu að við Bergur Ebbi tölum framhjá hvor öðrum. Við tölum ekki við hvorn annan, eða réttara Bergur Ebbi er ekki að tala við mig, um mig, hann er ekki að lýsa mínum veruleika. Ég viðurkenni að veruleikinn sem Bergur Ebbi lýsir þar sem helmingur lífsins, að minnsta kosti, fer fram í hinni stafrænu veröld er mér nokkuð framandi. Ég skil þó alveg hvað hann segir; þar ríkir eitthvað ákveðið merkingarleysi, samhengisleysi, botnleysi, enginn veit hvað hann á að halda og ég veit ekki hvað. Hjá þeim sem hafa tekið upp nútíma lifnaðarhætti þar sem lífið fer fram við að pota í og strjúka skjá, eins og Bergur lýsir því, á þessi lýsing kannski við. Mörkin milli raun-veruleika og hins stafræna heimsins verða óskýr og fólk á erfitt að skilja þarna á milli, milli kjöts og rafeinda. Þarna er ég ekki, ég hef ekki fleygt mér til sunds í þessu ólgandi stafræna hafi og kannski eru ekki eins margir og Bergur heldur á svamli þar. Þessi veruleikafirring, sem Bergur lýsir, er ef til vill ýkt mynd af nútíma lífi, kannski er hann bara að tala við og um sína eigin kynslóð?

Það var að minnsta kosti eitthvað ófullnægjandi við lesturinn á bók Bergs Ebba og því ákvað ég að hætta að hugsa um hana í dag og halda frekar áfram för minni eftir Strandvejen. Ég hafði fengið góða hugmynd; ég skyldi koma við hjá bakaranum og kaupa mér franska vöfflu, bera hana (vöffluna) í brúnum bréfpoka upp á skrifstofu. Síða skyldi ég hella mér upp á kaffi, kveikja á söng Rosmary Standley, narta í kökuna og skrifa dagbók dagsins í þessum notalega ramma; kaffi, söngur og frönsk vaffla. Ég stend föstum fótum í kjötheimum.

Morgunbirtan í fjörunni við Eyrarsundið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.