Ég las frábæra grein á Kjarnanum í gær skrifaða af efnafræðingnum og prófessornum Ingvari Helga Árnasyni. Mér fannst greinin að minnsta kosti frábær. Efnið er sett fram af slíku látleysi, hógværð og kurteisi að til fyrirmyndar er. Efnafræðingurinn lýsir á sinn hófsama hátt hvernig kísilverksmiðjur starfa, hvað þær framleiða og á hvaða hátt og til hvers afurðirnar eru notaðar. Greinina skrifar hann eiginlega í tilefni orða Auðar Övu Ólafsdóttur frá 7. febrúar árið 2017 þar sem hún gagnrýnir m.a. kísilverksmiðjuna á Húsavík fyrir notkun sína á kolum og vegna orða Kára Stefánssonar þar sem hann víkur illu orði að Steingrími Sigurðssyni fyrir að bera ábyrgð á því að „sex þúsund tonnum af kolum sem eru brennd ár hvert á Bakka til dýrðar auðhyggjunni.“ Ingvar bendir réttilega á hve mikilvæg sú umræða, sem Auður og Kári leggja rödd sína til – það er umhverfisumræðan – sé byggð á þekkingu og að menn hrópi bara ekki einhverja vitleysu út í loftið. „Ég trúi því að flestir sem tjá sig á neikvæðan hátt um „kolabrennsluna á Bakka“ geri það ekki af illum vilja heldur fyrir ákveðinn misskilning á þeirri starfsemi sem þar fer fram,“ segir Ingvar.
Og hann heldur áfram. „Hér (í verksmiðjunni á Bakka) eru kol notuð til að losa málm úr sambandi hans við súrefni (málmoxíði) … Á þennan hátt má framleiða marga málma með því að hita saman málmoxíð og kol … Kolin eru hér hluti af efnaferli en ekki notuð til orkuframleiðslu … Öllum umhverfissinnum vil ég sérstaklega benda á að dæmi um vörur sem innihalda kísilmálm er rafmagnsstál fyrir spenna og rafmótora sem notaðir eru í rafmagnsbíla, hástyrktarstál fyrir vindmyllur, ryðfrítt stál fyrir farartæki o.m.fl. Ættum við að vera mótfallin þessu vegna þess að kol eru notuð við efnaferli framleiðslunnar? … Hreinsaður kísilmálmur er lykilefni til framleiðslu á sólarrafhlöðum sem eru einn af máttarstólpum vistvænnar framleiðslu á rafmagni þar sem nægt framboð er af sólskini.“
Mér þótti gaman að lesa þessa grein. Hún er skrifuð af þekkingu og stillingu og bendir á mikilvæg atriði sem menn ættu að hafa í huga þegar rætt er um umhverfismál; samhengi hlutanna og almenna þekkingu. Flestir vilja nota afurðir stóriðjunnar: ál, stál, sílikon, … en fæstir vilja blessa framleiðsluna, sérstaklega ekki þegar verksmiðjan er í eigin heimagarði. Ætti maður kannski að hætta að nota stálvörur, álvörur, kísilvörur (og þær eru margar) vegna þess að kol eru notuð til framleiðslunnar.
Umhverfisvernd er aldeilis lífsnauðsynleg. Vitund um umhverfi og hvernig hægt er að hlúa að náttúrunni, vernda hana og byggja upp er mikilvæg. En það þarf að vera skynsemi og einlægni sem stýrir þeirri umræðu. Hverju vill maður sjálfur fórna af eigin vellíðan fyrir náttúruna, hvað vill maður sjálfur leggja á sig fyrir náttúruna? Hvað vill maður leggja að veði? Er nóg að hrópa upp, sjáðu mig ég gagnrýni umhverfissóða, ég borða lítið kjöt, ég flýg svolítið sjaldnar (eða þannig) og fer stundum í strætó, alla vega í góðu veðri. Menn eru gjarnari á að benda á það sem aflaga fer, benda á eigin geislabaug, en gleyma að benda á hugsanlegar og skynsamar lausnir.
Hver er til dæmis lausnin á kolanotkun kísilverksmiðjunnar á Bakka? Eða mengun slíkra verksmiðja? Að loka verksmiðjunni á Húsavík er engin lausn á mengunarvandanum því enn er eftirspurn eftir afurðum verksmiðjunnar og það sem Bakkaverksmiðjan framleiðir nú yrði framleitt annars staðar í heiminum, með sömu mengunarafleiðingum eða verri ef verksmiðjunni yrði lokað.
Bál til dýrðar auðhyggjunni, skammastu þín Steingrímur, segir Kári um leið og hann dundar sér við að hella upp á kaffi í vél sem er búin til úr afurðum stóriðjunnar og fæstir vilja vera án.
ps. Nú er ég enn farinn að skrifa um náttúrvernd og vandan við að vera ærlegur í þeirri umræðu. Þetta er nú eiginlega efni sem minn góði vinur Jón Karl á einkarétt á.
pps Ég á auðvitað ekki að vera að pota í jafn valdamikið fólk og Kára Stefánsson og Auði Ólafsdóttur vilji maður vera í friði. Ég uppsker ekki annað vandræði. Þetta hef ég lært af lestri bókar Bergs Ebba, Skjáskot.