Espergærde. Æfingar Tíbetmunkanna.

Það er laugardagur og þegar ég geng út á svalir og horfi yfir Eyrarsundið sé ég að sólin skín líka á Svíþjóð. Það er ekki oft sem ég fer út á svalir þegar ég vakna (það eru svaladyr á svefnherberginu mínu) en ég hafði þörf fyrir að draga andann. Sjúga til mín ferskt morgunloftið því ég hafði þessa svakalegu köfnunartilfinningu þegar ég vaknaði. Ég fann að ég hafði átt erfiða nótt, ég var órólegur og svaf illa. Þetta var ekki bara tilfinning því nú hef ég á úlnliðnum Garmin-úr, sem Sus gaf mér, sem mælir allt; svefn, hjarta, súrefni til heila, þrek, gáfur, styrk, göngulengd hvers dags … og stress. Og það var einmitt stressmælirinn sem hafði verið í botni í alla nótt! Ég hef aldrei séð annað eins. Garmin er alltaf að segja mér hvað ég er cool. „Þú ert ískaldur, Snæi, rólegur og fínn. Cool eins og agúrka,“ segir úrið á hverju degi við mig og stressmælirinn er í 8 (af 100). Og ég horfi stoltur í kringum mig.

En í nótt var ég ekki cool. „68 í stressi,“ hrópaði Garmin þegar ég vaknaði. Ég hef ekki séð annað eins. „Og hvað er að angra þig, Snæi minn,“ spurði Garmin. „Ég veit það ekki,“ svaraði ég aumingjalega. „Kannski nýja verkefnið sem ég byrjaði á í vikunni …“

Ég var miður mín yfir morgunmatnum því ég fann að hjartað hamaðist í brjósti mér og þá fékk ég þessa fínu hugljómun. Auðvitað fer ég að ráðum Tíbetmunkanna sem eru svo rólegir og í miklu jafnvægi. Mér var kennt að þeir gerðu fimm æfingar á hverjum degi. Æfingar Tíbetmunkanna, heita þær, og ég lagðist á gólfið og byrjaði og endurtók þær þrisvar sinnum hverja. Þetta geri ég næstu þrjá daga þar til ég bæti þremur við. Þannig að eftir þrjá daga endurtek ég hverja æfingu sex sinnum og svo framvegis. Nú verð ég aftur rólegur.

Ég fékk bréfasendingar í gær þar sem ég gat lesið að fólk hafði kannski aðeins misskilið færslu gærdagsins; að ég væri einhver sérstakur baráttumaður fyrir stóriðju að Bakka. Það er ég ekki og heldur enginn aðdáandi stóriðju. Stóriðnfyrirtæki framleiða vörur sem gera líf okkar þægilegra og margt af því sem stóriðjan framleiðir ættu flestir erfitt með að vera án. Maður verður víst að horfast í augu við það (til dæmis þessi dásamlega tölva sem ég nota nú væri víst ekki til án drullugrar námavinnslu og eiturspúandi járnframleiðslu). Ég vildi bara með færslu gærdagsins hæla efnafræðingnum Ingvari fyrir góðar ábendingar um að umhverfisumræða verður að fara fram af skynsemi, heiðarleika og þekkingu. Maður þarf að líta í eigin barm.

Ég sá í morgun að sólin skein í Svíþjóð og þangað ætla ég í dag til að dásama náttúruna þar. En ég á von á Sölva og Ingibjörgu síðar í dag. Ég hlakka til. Sölvi ætlar meira að segja að elda kvöldmatinn í kvöld; búa til kjötbollur fyrir okkur. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.