Espergærde. Að lýsa stystu leið til strandarinnar.

Ævidagar mínir geysast áfram eins og hraðboði, renna áfram eins og reyrbátur og enn er kominn sunnudagur. Ég er ekki tilbúinn fyrir sunnudag ég vildi að laugardagurinn entist lengur.

Það rignir í dag. Þetta er danskt regn sem fellur fá himnum og beint niður á jörðina, regnið er milt, maður verður þess varla var og það tekur göngumann langan tíma að verða blautur. Það sannreyndi ég.

Því ég valdi að fara út strax eftir að ég hafði fengið mér morgunkaffi og gekk greiðlega út á milli akranna. Ég var einn á ferð og virti fyrir mér hestana sem voru á beit innan girðingar. Þeir litu ekki upp þegar ég gekk hjá og virtu mig ekki fyrir sér. Gangi hann fram hjá mér sé ég hann ekki, fari hann hjá verð ég hans ekki var.

Á göngu minni í sveitinni hitti ég mann … og nú kemst ég í vanda því maður má ekki lýsa honum sem feitum, eða mjóum eða sem karli eða konu, gömlum eða ungum. Maður verður sannarlega að passa orðanotkun sína. En ég hitti mannveru á göngu minni sem stóð ráðvillt á vegamótum. Þegar mannveran sá mig nálgast setti hún sig í biðstellingu því augljóst var að hún (mannveran) vildi spyrja mig einhvers. „Fyrirgefðu,“ sagði mannveran þegar við vorum komin í talfæri.
„Ef ég vil komast niður að sjó, hvort á ég að beygja til hægri eða vinstri.“
„Þú getur bæði beygt til hægri og vinstri,“ svaraði ég. „Í báðum tilvikum nærðu á endanum niður til strandarinnar. En veljir þú að taka beygjuna til vinstri er vegurinn niður að sjó skemmri en veljir þú að beygja til hægri.“ Þetta sagði ég án þess að vera sposkur á svipinn. Ég held að mannveran hafi ekki þótt svar mitt fullnægjandi því þegar ég gekk áfram stóð hún enn á gatnamótunum, jafnráðvillt og áður. Sennilega ætlaði hún að spyrja næsta vegfarenda og fá skýrari svör.

Í gær heimsótti ég fríríkið Ladonia í Svíþjóð, sem er stofnað af listamanninum Lars Vilks. Þetta er mikið furðuverk, risavaxinn tréskúlptúr með tólf metra háum turnum og mjóum göngum sem hann kallar Nemis. Þetta mikla virki er byggt úr rekaviði og listamaðurinn hlýtur að hafa notað mánuði eða ár í að negla þetta spítnaverk saman, langt frá öllu og niður í grýttri fjöru á vesturströnd Svíþjóðar. Þetta er mikil furðusmíð, heillandi og skemmtilegt. Svona dót finnst mér alltaf svo áhugavert, ég vildi sjálfur hafa búið til þetta verk en sennilega hefði ég ekki stofnað sérstakt ríki í kringum það.

Nemis í ríkinu Ladonia umgirt af Svíþjóð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.