Espergærde. Þjófavörnin

Í bænum þar sem ég bý hittir maður ekki marga aðra en hundaeigendur á morgungöngu fyrir klukkan átta. Ef einhver verður á vegi manns er sá sami nær ávallt bundinn við hund. Það er ekkert að því að ganga með hund, eiga hund eða vera tengdur hundi með ól. Það eina sem ég segi er að ég hitti varla aðra á morgnana en þá sem eiga hund.

Ég tók langan krók á leið minni til vinnu þar sem ég er að hlusta á hljóðbók og það er svo hentugt að ganga og hlusta á sögulestur. Þegar ég nálgaðist skrifstofuna mína stóð maður (með hund) og virti fyrir sér nýju bók vikunnar (ugens bog) í glugga skrifstofunnar. Ég gekk framhjá manninum til að opna dyrnar að skrifstofunni og bauð honum góðan daginn.
„God morgen,“ svaraði maðurinn og benti svo á bókina í glugganum. „Hvað er þetta eiginlega, ‘uges bog’? Er þetta eins konar þjófavörn?“
„Þjófavörn?“
„Þjófar sem eiga leið hér hjá halda að þarna inni allt sé fullt af bókarusli og sjá því ekki ástæðu til að brjótast inn. Einu sinni var alltaf flott iMac tölva á skrifborði sem blasti við manni þegar maður leit hér inn um gluggann en nú er bara „bók vikunnar.“
Síðustu tvö orðin sagði hann með annarri rödd, pempíulegri rödd, og veifaði tveimur fingrum beggja handa til teikna gæsalappir í loftið. Hann virtist ekki beint hrifinn, hundaeigandinn, af þessari litlu skemmtun minni að velja bók vikunnar til að setja út í glugga. Svo kippti hann í hundinn sinn sem merki um að þeir skyldu halda áfram för sinni. En svo leit hann á mig og sagði í kveðuskyni. „Þetta fælir að minnsta kosti innbrotsþjófana frá.“

Þetta er í annað sinn í morgun sem ég er minntur á hvað bækur og bóklestur á undir högg að sækja. Bækur eru nánast fyrirlitlegar í augum sumra. Ég er nefnilega að hlusta á vinsæla barnabók á göngu minni. (Ég er áhugamaður um barnabækur.) Og í þeirri bók fjalla nokkrir kaflar um þá miklu refsingu sem aðalpersónan, 12 ára strákur, þarf að taka út; að vera með í lesklúbbi sem mamma hans hefur stofnað fyrir hann og vini hans. Þar eru þeir þvingaðir til að lesa bækur (sem þeir gera ekki og geta ekki) og slökkva á tölvuleikjunum sínum á meðan. Ég sjálfur gæti ekki hugsað mér líf án bóka og bókmennta. Það liggur við að ég skrifi bókmenntamola núna.

Bókmenntamoli: Ian McEwan er á leið til Íslands að taka við Laxness verðlaununum sínum sem hann hlaut fyrr á þessu ári, við misjafnar undirtektir áhugafólks um bækur og bókaverðlaun. En Ian McEwan hafði ekki tíma til að koma í vor vegna anna en nú er gap í dagskrá hans og hann hefur valið að heiðra Íslendinga með nærveru sinni og veita verðlaununum persónulega viðtöku. Ég held meira að segja að hann sé boðinn í kvöldmat hjá forsetanum á fimmtudaginn, þann 19. september. En þetta var ekki aðalefni bókmenntamolans, heldur að Ian McEwan er búinn að skrifa nóvellu sem hefur fengið nafni Kakkalakkinn og kemur út föstudaginn 27. september og fjallar sagan um meðaljón sem er valinn til að vera forsætisráðherra Bretlands. Þetta var bókmenntamoli dagsins. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.