Espergærde. Málæðinu fylgja yfirsjónir

Vinur minn rithöfundurinn er glaður maður, nýja bókin hans selst eins og heitar lummur hér í Danmörku. „6. prentun! En þetta er síðasta bókin mín,“ segir hann með sinni ákveðnu og áköfu röddu. Hann er með brún, róleg augu og hann horfir einlæglega á mig. Hann á alltaf svo brýnt erindi, hann vinur minn. Honum liggur mikið á hjarta í hvert skipti sem við hittumst. Einn daginn er hann hættur að ferðast, næsta dag ætlar hann að leggjast í mánaðalangt ferðalag. „Ég er búinn að fá nóg af lesendum mínum, ég er búinn fá nóg af því að hitta þá, mér finnst þeir ekki lengur áhugaverðir. Það segir kannski eitthvað um bækurnar mínar að það finnst bara ekki ein áhugaverð manneskja sem les þær. Hér eftir skrifa ég bara handrit að sjónvarpsseríum, það er svo milljón sinnum auðveldara en að skrifa bók.“

Við hittumst á bjórbar og vini mínum er heitt í hamsi eins og svo oft áður. „Ég hef verið í viðtölum við nánast hvern einasta fjölmiðil í Danmörku á þessari ferð minni hérna um. Ég fæ aldrei spurninguna sem mig dreymir um að svara: Hvað það er mikilvægt að við hlúum að bókmenntunum. Bókmenntirnar eru mesta afrek mannkyns en á nú í vök að verjast fyrir lúðaskap og hálvitagangi. Fólk er búið að missa hæfileikann til að lesa af því það slefar í sífellu ofan í helvítis símann sinn, alla sínar vökustundir. Fólk er friðlaust, það hefur enga hugarró og með hverju klikki minnka möguleikar bókmenntanna til að lifa af.“
„Æ, rólegur nú,“ sagði ég, „Þetta er kannski ekki svona slæmt.“
„Jú, verra!“

Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.
„Snæi, þú hlýtur að sjá að ég hef rétt fyrir mér,“ segir hann í örvæntingu sinni.

dagbók

2 athugasemdir við “Espergærde. Málæðinu fylgja yfirsjónir

  1. Ég held að þessar áhyggjur mannsins séu hreint ekki ástæðulitlar. Fyrir fáum árum kom það fyrir í Berlín að ég sá stundum allt upp í fimm manns í lestinni með bók – hinir voru með fingurna á símanum eða bara að horfa út í bláinn. Fyrir nokkrum dögum vakti það sérstaka athygli mína að sjá Rússa lesa bók í lestinni (Töfrafjallið e. T. Mann). Síðan hef ég engan mann, enga konu heldur, séð með bók í lestinni. Allir eru með augun tínd í símum og þeirra fortöpuðu dýrð.

    • Þakka þér fyrir góða athugasemd. Nú er tími kominn til að örva bókmenntaáhuga fólks hver með sínum hætti.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.