Espergærde. Ímynduð mynd á forsíðu.

Nú er föstudagur. Rigning og kirkjuklukkur. Ég keypti áðan flugmiða til Íslands þar sem ég ætla að vera á landinu þann 27. september til 29. september. Þetta var flugmiði keyptur með skömmum fyrirvara svo verðið var svimandi hátt, en ég þarf að komast til míns gamla heimalands þessa daga.

Ég hef verið að hugsa um frétt á forsíðu visir.is sem ég rakst á um daginn. (Það eru nokkrir dagar síðan ég sá fréttina og satt að segja hef ég reynt að ýta fréttinni úr huga mér en hún lætur mig einhvern veginn ekki í friði.) Með forsíðufréttinni var birt mynd af manni sem ég kannast við og hann segir farir sínar ekki sléttar. Þegar ég las fréttina velti ég því fyrir mér af hverju maðurinn var að fara með þessa litlu, leiðinlegu sögu í blöðin. (Hann hafði víst birt sömu sögu á facebook og fengið mikil viðbrögð eins og til var ætlast.) Sagan fjallar um að banki á Íslandi hafði sent skyldmenni hans rukkun á ógreiddri skuld en skyldmennið var látið fyrir nokkru. Sagan gekk út að kerfið skyldi ekki að maðurinn var dáinn og bankinn vildi fá skuld sína greidda. Allt er leiðinlegt við þessa sögu, bæði fyrir bankann og fyrir manninn sem vildi leiðrétta. Ég klóra mér bara dálítið í höfðinu yfir spurningunni hvers vegna er verið að fara með þetta í fjölmiðla? Þetta ætti að vera auðvelt að leiðrétta hjá bankanum og enginn hefur áhuga á að senda látnum manni bréf, það er svo tilgangslaust. Viðtakandi hefur enga möguleika á að bregðast við bréfinu. Hvað rekur mann með slíka frétt í fjölmiðla? Sækist fórnarlambið (maðurinn) eftir samúð almennings eða vill fórnarlambið láta bankann líta illa út? Öllum líður örugglega miklu betur eftir að þessi frétt var prentuð (kaldhæðni).

Ég hef líka sent látnum mönnum (karli og konu) bréf. Þegar mér var bent á að viðtakandi var látinn þótti mér vont að hafa sent bréfið, en ég vissi bara ekki að viðkomandi var látinn. Annars hefði ég ekki sent bréfið.

En þetta voru nú hugsanir mínar á leiðinni til vinnu. Ekki voru þær merkilegar en ég skrifa þetta hér bara til að gefa dæmi um hugsanaflóð mitt á föstudegi í rigningu með óm frá kirkjuklukkum í bakgrunni. Ég var að reyna að sjá sjálfan mig, mynd af mér, á forsíðu einhvers blaðs með rukkunarbréf til náins, látins ættingja á lofti svo myndavélin gæti haft það með á myndinni. Mér tókst ekki að ímynda mér það.

Bókmenntamoli: Þegar ég er á Íslandi nú í lok september er haldin hin árlega bókamessa í Gautaborg í Svíþjóð. Ísland á sína fulltrúa; íslensku forlögin mæta með bæklinga sína og reyna að selja þýðingarrétt á íslenskum bókum. Eini (svo ég viti) íslenski rithöfundurinn sem er gestur hátíðarinnar er hin ástsæla Auður Ava Ólafsdóttir. Hún mun m.a. ræða við forleggjarann Anton Gustavsson um bók sína Fröken Ísland.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.