Hlutir, menn og dýr verða tímanum að bráð, það hef ég alltaf vitað. Hurðin á skúrnum fyrir utan húsið mitt ber þessari staðreynd svo gott vitni. Hurðin var hvítmáluð og sett saman úr fimm fjölum. En þegar ég flutti inn í húsið mitt hér á Søbækvej í Espergærde fyrir nokkrum árum var hurðin aðeins farin að fúna. En það var ekki svo mikilvægt fyrir mig að skipta um þessa hurð því hún sinnti enn sínu hlutverki ágætlega; að loka á allt draslið sem er inni í þessum góða skúr.
Í sumar hitti ég kunningja minn sem fór að tala um hvað honum þætti gaman að smíða. Hann smíðaði bekki og borð og allt var farið að leika í höndunum á honum, sagði hann. Hann var vanur að vinna í hóp, við kvikmyndagerð og það fannst honum stressandi og oft frústrerandi. En trésmíði – þar sem hann bar einn ábyrgð á verkinu, þar sem hann fékk að ráða hraða og aðferðum – átti vel við hann. Ég spurði hann því hvort hann hefði áhuga á að smíða hurð á skúrinn minn (sem nú var enn fúnari en þegar ég flutti inn því tíminn hafði liðið). Það vildi hann og nú er hurðin smíðuð, (úr fimm fjölum) og komin á sinn stað. Ég er búinn að mála hurðina hvíta og allt er gott.
Ég vildi auðvitað borga manninum fyrir vinnuna. Hann vildi ekki peninga, bara eina flösku af ólífuolíu frá litla ólífulundinum í LaChiusa, hann vildi ást, þakklæti og ekki síst að hann fengi viðurkenningu þegar hann ynni gott verk. Þessi samningur átti að vara að eilífu. Ólífuolíuflaskan er afhent, Henning, en það heitir smiðurinn, hefur verið faðmaður nokkrum sinnum og ég reyni að fylgjast með störfum hans, fjölskyldunni og unnum utandyraafrekum til að geta veitt honum þá viðurkenningu sem hann telur sig eiga skilið.
Ég segi frá þessu hér þar sem ég hitti vin minn manninn með hundinn í morgun einmitt þegar ég var á leið til Henning til að færa honum bjór í tilefni afmælis hans (eilífur kærleikur). Hann var þreyttur og argur vinur minn með hundinn. Hann hafði lagt bíl sínum í gærkvöldi í Brønshøj, sem er hálfdapurlegt hverfi við Kaupmannahöfn. Þar hafa margir af innflytjendum af arabískum uppruna (flestar búðarmerkingar eru á arabísku) komið sér fyrir, þar er fátækt, glæpir tíðir og hinn skelfilegi glæpalýður sem safnast í hópa undir hinum ýmsu nöfnum (Brothars, LTF: Loyal to the Family, Hells Angles, Banditos …) níðist þar á fólki og hlutum. Í þessu hverfi hefur herjað hálfgerð óöld síðustu árin vegna slagsmála þessara hópa. En í gær þegar vinur minn með hundinn kom út eftir heimsókn sína í hús í Brønshøj og ætlaði að keyra bílinn sinn heim – hann hafði lagt við gangstétt – var búið að skera göt á dekkin á bílnum hans. Og ekki bara á bílnum hans heldur öllum bílum sem hafði verið lagt við gangstéttina. „Ég hoppaði af reiði, ég var viti mínu fjær af reiði. Ég var svo reiður að ég hefði getað kyrkt þann sem gerði þetta, eða að minnsta kosti skorðið á dekk bílsins hans. En svo hugsaði ég, þegar reiðin var farin að renna af mér: Líktu ekki eftir því sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því sem gott er. Þetta bar vott um sálarþroska, fannst mér. Er það ekki? Þú ættir að skilja um hvað ég er að tala um.“
Bókmenntamoli. Ég sá að The Guardian var að velja 100 bestu bækur 21 aldarinnar og í fyrsta og efsta sæti er engin önnur en Hilary Mantel fyrir bók sína WolfHall. En top tíu er svona samkvæmt The Guardian
1. WolfHall, Hilary Mantel
2. Gilead, Marilynne Robinson (fæst í íslenskri þýðingu)
3. Secondhand Time, Svetlana Alexievich
4. Never let me go, Kazuo Ishiguro (Slepptu mér aldrei í ísl. þýðingu)
5. Austerlitz, WG Sebald
6. The Amber Spyglass, Philip Pullman (skuggasjónaukinn í ísl. þýðingu)
7. Between the World and Me, Ta-Nehisi Coates
8. Autumn, Ali Smith
9. Cloud Atlas, David Mitchell
10. Half of a Yellow Sun, Chimamanda Ngozi Adichie