Espergærde. Stór smákaka og lýsingar samstarfskonu.

Ég byrja daginn hægt, ég er að æfa mig í að lifa hægt. Eftir að hafa gert hinar fimm æfingar Tíbetmunkanna í morgun, drukkið morgunkaffið og kvatt fjölskylduna, gekk ég af stað. Ég ákvað – með hið hæga líf í huga – að velja langa gönguleið á skrifstofuna. Eins og oft áður er það sjórinn sem dregur mann til sín og ég gekk niður á strönd. Á sundinu var nokkur skipaumferð og í morgunhálfrökkrinu sýndist mér stórt skemmtiferðarskip sem sigldi suður Eyrarsundið vera eyja með undarlega háu fjalli. Fjallið reyndist vera hinn mikli skorsteinn sem er á þessum risaskipum. Co2!

Á leiðinni í átt að skrifstofunni er lítil skonsa við höfnina þar sem bakarinn frá næsta bæ selur nýbökuð brauð og kökur. Ég hafði séð fyrir mér, þegar ég kæmi á skrifstofuna, að ég mundi setjast með kaffibolla og bókina mína í hálftíma áður en ég hæfi hina raunverulegu vinnu. Mér datt í hug að það mundi setja punktinn yfir i-ið að eiga smáköku með kaffinu til að maula í. Ég gekk því inn í bakaraskonsuna og bað afgreiðslustúlkuna um eina smáköku. Í ljós kom að þetta var fyrsti vinnudagur hennar við kökuafgreiðslu svo hún vissi ekki hvað ég meinti með „einni smáköku“. Í sjálfu sér er ég ekki mikið fyrir kökur en mér þótti hugmyndin um smáköku með kaffinu fullkomin. Eina smáköku, kom í ljós, getur maður víst ekki keypt hjá bakara. Annað hvort verður maður að kaupa heilt box með smákökum (örugglega 15 stykki) eða stóra smáköku sem er jafnstór undirskál og kallast cookie. Ég keypti cookie.

Á skrifstofunni kom ég mér makindalega fyrir í nýja hægindastólnum og hélt áfram lestrinum frá því í gærkvöldi – ég les enn Rachel Cusk, hún hefur skrifað margar bækur – drakk minn góða kaffibolla og borðaði þessa risasmáköku. Ég sé að ég get ekki haldið áfram að borða smákökur með kaffinu á morgnana ef ég ætla ekki að enda laginu eins og búrhvalur.

Þegar þessi hugsun um búrhvalinn kviknaði í huga mér mundi ég allt í einu eftir konu sem ég vann með þegar ég var nýútskrifaður stúdent. Hún var nokkuð eldri en ég og mjög opinská um allt varðandi einkalíf sitt. Á morgnana þegar við gengum í morgunverkin fékk ég alltaf nýjustu fréttir af samlífi hennar og eiginmannsins. Maðurinn hennar var stór og feitur – hún sjálf var í góðum holdum – og svo lýsti hún fyrir mér samförum þeirra eins og „tveggja búrhvala að para sig.“ Svo bætti hún hlæjandi við: „ég er alltaf svo hissa á að rúmið brotni ekki undan látunum í okkur, þessum kjötflykkjum.“ Myndin sem kom upp í huga mér hefur alveg gróið föst í heilann á mér og þegar ég hugsa um búrhval birtist mér alltaf þessi svakalega mynd af tveimur 150 kg manneskjum í faðmlögum í of litlu rúmi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.