Það hellirignir í Danmörku og allt er á floti. Bráðum flýg ég af stað í Boeing-þotu til Íslands. Ég vona að hún komist á loftið í gegnum allt þetta vatn sem hellt er niður af himninum. Ég ætla ekki að vera lengi á Íslandi, bara fram á sunnudag. Ég á erindi til landsins; kíkja á afmælisbarnið Eirík. Hann á það inni hjá mér að ég komi til hans og huggi hann þegar hann á afmæli. Og í dag kíki ég á annað afmælisbarn sem verður sjö ára. Það er mikill gleðidagur fyrir Öglu Söndrudóttur að ná þeim áfanga að verða sjö ára. Henni liggur á að verða stór, þannig er það þegar maður er sex ára.
Mér varð hugsað til orða stærðfræðingsins Blaise Pascal þegar ég horfði á samferðamenn mína í lestinni á leið til Kastrup: „Allur vandi heimsins á rætur sínar í að manneskjan er fullkomlega óhæf til að sitja þegjandi ein í herbergi.“ Ég held að hin frægu orð sem NIKE gerði svo að sínum Just do it séu líka höfð eftir honum. En það mun víst hafa verið svar hans til ungs manns sem var þjakaður af ægilegum efasemdum um getu sína og dugnað. Unga manninum fannst hann latur, honum leiddist og honum fannst hann vanta allan drifkraft. En Pascal svaraði. „Það er ekkert að þér. Þú er bara – og það erum við öll – hræddur. Komdu þér bara í gang. Just do it.“
Bókmenntamoli: Enn eitt afmælisbarnið. T.S Elliot átti afmæli í gær, þann 26. september. En þetta góða skáld fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1948. Þekktastur er Elliot fyrir ljóð sitt Eyðilandið sem prentað var árið 1922. Elliot sat lengi í ritstjórn breska útgáfufyrirtækisins Faber & Faber (þótt það væri aðeins einn Faber sem átti fyrirtækið). Og fræg eru höfnunarbréf hans til James Joyce, WA Auden og George Orwell. Hér er stuttur kafli úr höfnunarbréfi Elliots til Orwells sem hafði sent handrit sitt að Animal Farm til Faber & Faber forlagins:
„Mér er kunnugt um að þú lagðir ríka áherslu á að við værum fljót að gera upp hug okkar varðandi Animal Farm. En þannig er það hér hjá okkur að minnsta kosti tveir ritstjórar þurfa að meta innsend handrit; það er ómögulegt á skemmri tíma en einni viku. En sem sagt við erum sammála um að þetta sé vel skrifað verk. Dæmisagan er fagmannlega unnin og bæði frásögnin og sögusviðið vekur áhuga lesandans – og það er fáum höfundum sem tekst slíkt í dæmisögum. (Kannski síðast með Gulliver.)
En við erum hins vegar ekki viss um að þetta sé rétta aðferðin til að gagnrýna nútíma ástand stjórnmálanna …
Mér þykir þetta mjög leitt vegna þess að sá sem gefur þetta verk út mun náttúrulega hafa tækifæri á að gefa út þau verk sem þú semur í framtíðinni. Ég hef mikið álit á ritstörfum þínum því þú skrifar bæði vel og fullkomlega heiðarlega.“