Hvalfjörður. Rannsókn á glæpamáli.

Í tvö eða þrjú ár, kannski enn lengur, hefur sótt á mig sú undarlega kennd að ég hafi fyrir mörgum áratugum skrifað í minnisbók vangaveltur mínar og félaga míns um hugsanlegar ástæður morðs sem framið var í Reykjavík fyrir langalöngu. Við vorum bara smástrákar þegar atburðirnir gerðust en þetta eftirminnilega morðmál fyllti hvern kima í huga okkar.

Ég átti samtal við þennan gamla vin minn í gærdag. Ég var sjálfur brunandi á Kia-bíl, sem ég er með í láni, eftir Keflavíkurveginum þegar síminn hringdi. (Ég veit að hann var sjálfur staddur í eldhúsinu heima hjá sér því ég heyrði diska og pottaglamur í bakgrunni símtalsins). Satt að segja var þetta þriðja símhringingin frá því að ég lenti tuttugu mínútum fyrr á flugvellinum í Keflavík. Ég er ekki vanur að svara svo oft í símann með svo stuttu millibili og því hikaði ég eitt andartak við að lyfta tólinu en þegar ég sá hver var á hinum endanum gat ég ekki neitað mér um samtalið. Erindi félaga míns snerti minnisbókina eða morðrannsóknina ekki á nokkurn hátt, þótt hið eiginlega erindi hans leiddi okkur heldur skyndilega að gömlu minnisbókinni. Í framhjáhlaupi – hann var rétt búinn að minnast á erindi samtalsins – sagði hann mér að mamma hans, sem héldi til haga öllu hans dóti frá æsku og unglingsárum, hafi afhent honum fyrir nokkrum árum litla svarta minnisbók með „undarlegum athugasemdum“ eins og hún orðaði það. Reyndist þetta vera gamla minnisbókin með rannsóknargögnunum. Kom í ljós að við höfðum sjálfir farið á vettvang glæpsins sem framinn var í janúar 1968. Við höfum því ekki verið nema sjö ára þegar við byrjuðum að stunda glæparannsóknir. Hann hafði því miður glatað minnisbókinni í „öllum sínum flutningum“.

En ég er kominn til Hvalfjarðar og sit hér í mínu góða sumarhúsi. Ég á alltaf erfitt með að sofa lengi og því var ég kominn á fætur fyrir allar aldir og beið þess – á meðan ég sýslaði hér í húsinu – að sólin birtist fyrir ofan tinda Botnsúlna. Ég tók mynd þegar grilla fór í sólina um hálf átta.

Bókmenntamoli. Ég sá einhvers staðar að ný bók Andra Snæs Magnasonar muni komi út þann 8. október 2019. Þetta er ekki í fyrsta sinn í haust að ég rekst á fréttir eða tilkynningar um væntanlega bók rithöfundarins. Það koma víst fleiri bækur út í haust, líka eftir aðra höfunda en Andra Snæ, en augljóst er hvaða bók hefur tekið athyglisforystuna í jólabókakapphlaupinu. Fáir eru jafn snjallir og Andri Snær að markaðssetja bækurnar sínar. Allt frá því að hann gaf út Bónusljóð árið 1996 hefur Andra Snæ ævinlega tekist að vekja óvenjumikla athygli á bókum sínum. Gæti verið að forsetaframboð Andra Snæs hafi veri hluti af markaðsáætluninni fyrir þessa bók? Maður getur ekki annað en dáðst að þessum hæfileikum rithöfundarins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.