Nú flýg ég aftur til Danmerkur í dag. Íslandsdvölin var stutt í þetta sinn en ég hitti óvenjumarga – bæði kunningja og vini. Í dag er sunnudagur, sólin sem enn er ekki komin hátt á loft (enda er snemma morguns) speglast í spegilsléttum Hvalfirðinum. Ég hef verið staðráðinn í að stunda æfingar Tímbetmunkanna á hverjum morgni og ég hef staðið við það. Í morgun þegar ég fór í gegnum æfingaröðina var mér hugsað til þessara munka frá Tíbet, hvort þeir sjálfir hefðu einhvern tíma gert æfingar sínar með jafn falleg útsýni og ég. (Hér er nákvæmlega það sem blasti við mér, sjá mynd)

En ég ætla að reyna að telja upp það fólk sem ég hitti í þessari skotferð minni til Íslands. (Ég sleppi að minnast á börnin mín).
Fyrsti maðurinn sem ég hitti þegar ég renndi inn í Reykjavík á leið til afmælisins hennar Öglu var enginn annar en bróðir minn Hafliði sem sat utandyra á Kaffi Vest. Við spjölluðum um stund og meginsamræðuefnið var listin að segja satt, að segja sannleikann. Hafliði benti mér líka á að inni í sjálfu kaffihúsinu sæti maður sem hann taldi mig þekkja. Ég gekk því inn.
Það var alveg hárrétt hjá bróður mínum að í einu af virðulegri sætum Kaffi Vest sat skáldið SJÓN og djúpum samræðum við unga konu sem ég kannast við og var kynnt sem Bjarney. Þau voru augljóslega tímabundin við vinnu á sameiginlegu og mikilvægu verkefni svo að ég skynjaði að skáldið hafði ekki tíma fyrir langt spjall svo við skiptumst á kurteisisorðum og hann sagði mér aðeins frá nýlegri ferð sinni til Danmerkur, rétt við mínar heimaslóðir.
Ég hafði lofað Kalman að kíkja aðeins á hann áður en ég hyrfi í Hvalfjörðinn þar sem hann stendur í flutningum. Ég held að ég hafi þar unnið mikið þarfaverk því þegar ég kem að nýjum hýbýlum Kalmans biðu mín þrír níðþungir kassar sem ég var beðinn að bera upp á þriðju hæð. Samræðuefni okkar Kalmans snerist fyrst um fremst um flutninga, líkamshreysti og endurnýjun glugga.
Skömmu síðar hitti ég Sigríði Hagalín, skáldkonuna og fréttamanninn. Við ræddum um áunnið bjargarleysi eða sjálfvalið bjargarleysi, húsgagnasmíð, Keflavík og körfubolta kvenna.
Síðan brunaði ég upp í Hvalfjörð og þar hitti ég ekki aðra sálu en sjálfan mig. Eintal mitt við sjálfan mig snýst aðallega um sálina og hvernig hún verði best göfguð. Yo!
Í gær var svo hinn stóri afmælisdagur; afmæli Eiríks Guðmundssonar, sjálft tilefni ferðarinnar, og auðvitað var afmælisbarnið og minn gamli sambýlingur fyrsti maðurinn sem ég hitti í afmælinu. Eiríkur er orðinn þvengmjór, svo mjór að vestið sem áður strengdist um bumbuna á honum, virðist vera hólkvítt. En samtal okkar Eiríks snerist eins og oft áður um ástina og kærleikann. En Eiríkur er líka farinn að taka upp á því að hóta mér; að taka þetta rant (eins og hann kallar skrifin) sem er hér á Kaktusnum og tæta það (rantið) í sundur í einhvers konar afhjúpandi greiningu. Ég er ekki hræddur.
Leikkonan Pálína Jónsdóttir stóð Eiríki við hlið. Hún man ekki eftir því, en við hittumst fyrst við uppsetningu leikritsins Dampskipið Ísland eftir Kjartan Ragnarsson. Það var fyrir löngu.. En við ræddum það ekki, heldur stöðu og möguleika leikstjóra og leikara á Íslandi.
Í miðju samtali okkar Pálínu kom leikarinn geðþekki Eggert Þorleifsson og heilsaði mér alúðlega og héldum við áfram að tala um stöðu leikara innan og utan veggja leikhúsanna.
Svo kom aðvífandi minn góði vinur Þorsteinn J. Vilhjálmsson. Samtalsefni okkar snerist um erótískar skáldkonur, slippinn í Reykjavík, hverfi 112 í Reykjavík, vinnuaðstöðu heiman og heima og um raddir karlfauska.
Ég heilsaði upp á, ja mér þykir það skrýtið að segja það, en jú, hann er víst stjórnmálamaður, hann Hjálmar Sveinsson, maðurinn sem ég reyndi einu sinni að afberlínisera í dansi á einhverjum skrýtnum stað við höfnina í Reykjavík fyrir um það bil fimmtán árum. En umræðuefni okkar Hjálmars snerist fyrst og fremst um að það hvernig það er að vera stjórnmálamaður en einnig um útgáfu á verkum Elísar Mar.
Í miðju samtali mínu vék sér að mér annar stjórnmálamaður, og það finnst mér enn skrýtnara að segja. Guðmundur Andri Thorsson. Við Andri þekkjumst ekkert sérstaklega vel þótt við höfum átt mörg góð samtöl um ævina. En ég held að það sé rétt sem Jón Kalman segir, að Guðmundur Andri sé sérstaklega góðviljaður maður og þá á ég við óvenjulega velviljaður. En samtal okkar Guðmundar Andra snerist um þennan hér Kaktus, því sjálfur konungur pistlaskrifanna fór harla fögrum orðum um Kaktusinn og fannst úthald mitt við þessi skrif svolítið afrek. Ég varð rithöfundinum óskaplega þakklátur fyrir örlæti sitt og svolítið upp með mér að jafn hæfileikaríkur maður eins og Andri er skuli klappa mér svona vinsamlega á bakið. Undir lofi Andra hugsaði ég: allir menn eru sem gras og öll vegsemd þeirra sem blóm á grasi, grasið skrælnar og blómið fellur.
Þar sem ég mætti tímanlega til veislunnar voru fáir gestir í upphafi og gafst betri tími til að ræða við hvern og einn og kliðurinn ekki eins hávær. En útvarpskonan Jórunn Sigurðardóttir kom til mín, eitt bros, og klappaði mér og knúsaði og virtist glöð að sjá mig. Mér þótti vænt um það, þar sem ég hélt að ég væri í sérstakri ónáð hjá þeim RÚV konum eftir ógætileg skrif mín hér á Kaktus um kynjakvóta. En meira að segja Þorgerður E. Sigurðardóttir, sem ég hélt að væri sérstaklega í nöp við mig, blikkaði mig og brosti, þegar við mættumst í anddyri Gunnarshúss þar sem hátíðin var haldin. Kannski hef ég oftúlkað einhver orð.
Sigríður Steinunn Stephensen, mín gamla, góða bekkjarsystir, kom til mín og við áttum skemmtilegt spjall um Ármúlaskóla, hin glötuð ár og búsetu í gömlum húsum. Tobba og Maggi Ásgeirs komu inn í það spjall og höfðu þau ýmislegt til málanna að leggja varðandi endurnýjun og viðhald húsa, flugferðir og spurninguna um að stoppa tímann.
Það var gaman að hitta Ástráð Eysteinsson, sem einu sinni var nágranni minn en samtal okkar var í sífellu truflað af ræðuhöldum til heiðurs afmælisbarninu. Eins var kliðurinn orðinn svo mikill og músikin svo hátt stillt að samtölin urðu hér eftir erfiðari.
Hermann Stefánsson var einn af gestum afmælisveislunnar og við ræddum orðið að blammera og ég fór að hugsa hvaðan þetta furðulega orð væri ættað en það mun víst vera komið úr frönsku blâmer.
Maggi Guðmunds kom seint til veislunnar en hann skemmti mér og fleirum með sögum af Halldóri í Henson en Maggi var að klára að skrifa ævisögu knattspyrnumannsins og þessa mikla athafnamanns. Óli auglýsingarteiknari og Guðrún Vilmundardóttir skemmtu mér hins vegar með sögum úr heimi peningaþvottamanna og skútueigenda.
Andri Snær Magnason sagði mér frá nýju bókinni sinni og kenndi mér nýjustu PR-trikkin enda er maðurinn snillingur í að kynna verk sín.
Þegar ég var að kveðja gestina lenti ég á ansi góðu spjalli við útvarpsmennina Guðna Tómasson og Hauk Ingvarsson. Mikið eru þetta geðslegir menn. Snerist samtal okkar um mátt fjölmiðla, eða máttleysi, um myndlist, ritdóma, skáldsagnagerð, ljóðasmíð, kynningu á myndlist í útvarpi og sjónvarpi, mafíuna á Ítalíu …
Sennilega er ég að gleyma einhverjum í þessari löngu upptalningu og ég vona að ég geri það ekki. Ég heilsaði auðvitað fleirum en spjall mitt við suma var svo stutt að ekki tekur að tíunda það hér.
Ég endaði kvöldið með að keyra Jón Kaldal heim, enda ég sjálfur á leið upp í Hvalfjörð. Kaldal er mikill kappi og hann sýndi mér sumarverkefni sitt, skúrsmíðina, sem er gífurlega hugvitssamleg hönnun. En í bílnum á leiðinni ræddum við fótbolta, líkamsæfingar, náttúruverndarbaráttu, væntanlega Halafundi og skipulagningu á þeim
Bókmenntamoli. Bragi Ólafsson, rithöfundurinn sem ég gaf einu sinni út hjá Bjarti, hefur eftir stutta hringferð milli íslenskra útgáfufélaga, aftur snúið sér til Bjarts og mun ný skáldsaga eftir hann, Staða pundsins, vera komin í prentun á kostnað Bjarts og er því væntanleg fyrir jól.