Ég flaug heim frá Íslandi síðdegis í gær og var kominn til heimabæjar míns seint í gærkvöldi. Í fluginu til Danmerkur – þar sem Icelandair nýtti hvert sæti vélarinnar – hitti ég nokkra Íslendinga sem ég kannast við. Á meðal farþega var enginn annar en Hjálmar Sveinsson. Við höfum ekki hist í næstum 15 ár og nú í þessari ferð minni til Íslands varð Hjálmar tvisvar á vegi mínum. Eins og alltaf er gaman að tala við Hjálmar, hann er áhugaverður maður. Við ræddum meðal annars um nýtt hlutverk bókasafna í stórborgum Evrópu og vanda dagblaða að halda velli þar sem fáir eru tilbúnir að greiða fyrir innihald blaðanna. Sif Gunnarsdóttir var líka á meðal farþega. Það er næstum alltaf bjart yfir Sif, hún er alltaf svo hressileg og hlýleg. En hún var, eins og Hjálmar, að fara að kynna sér bókasöfn í Danmörku og Noregi.
Á leið minni frá borði hitti ég annan mann sem ég hef aldrei áður talað við. Það var enginn annar en athafnamaðurinn og kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson sem varð samferða mér út úr flugvélinni og í gegnum flugstöðina í Kastrup. Það er hálfsturlað að hlusta á hvað þessi maður hefur mörg járn í eldinum. Mér leið eins og ónytjungi við hlið hans.
Á lestarstöðinni við Kastrupflugvöll lenti ég í undarlegu atviki, svo ég segi frá atviki – eins og skáldkonan hvatti ritlistarnemendur sína til að skrifa um. En í gær þegar ég kom niður á brautarpallinn vék sér ung kona að mér og sagði mér að það væri óþarfi að stimpla sig inn í lestina. Vegna afmælis lestarfélagsins og opnun Metro-línunnar í Kaupmannahöfn væri ókeypis í lestina. „Noh,“ sagði ég á minni fínu ríkisdönsku. Ég hætti því við að stimpla mig inn og beið rólegur á brautarpallinum eftir lestinni sem keyrir meðfram austurstrandlínu Sjálands (Kystbanen) Mér þótti þó eitthvað undarlegt við að ég þyrfti ekki að stimpla mig inn því hvergi á brautarpallinum var að sjá tilkynningar um þessa óvæntu gjafmildi lestarfélagsins. Eftir nokkuð hik ákvað ég að stimpla mig bara inn, þetta var of undarlegt.
Lestin kom, ég var heppinn að fá sæti og lestin brunaði í norðurátt. Það liðu ekki margar mínútur áður en vagnstjórinn kom inn í vagninn þar sem ég sat og bað mig um að sýna sér miðann minn. Hann var kannski ekki í sínu besta skapi – hvað sem olli því – því þegar ég spurði hvort ekki væri ókeypis í lestina í dag, svaraði hann frekjulega að það væri sko ekki ókeypis í lestina. „Hvar er miðinn þinn?“ bætti hann svo við afar strangur. Ég var ekki á því að gefa mig og spurði manninn hvort DSB (danska lestarfélagið) ætti ekki afmæli.
„Nei. Eða, það veit ég ekkert um. Ertu ekki með miða?“
„Ég frétti að það væri ókeypis í lestina vegna afmælisins.“
„Heyrðu mig félagi, sýndu mér miðann þinn eða ég sekta þig.“
Ég sýndi honum því miðann minn sem ég hafði verið svo heppinn að stimpla. En ég undraði mig mjög á þessari konu sem hvatti mig til að láta vera með að greiða fyrir lestarmiðann. Hvað var hún að hugsa? Vildi hún ég félli í einhverja sektargildru? Eða hafði hún sjálf misskilið eitthvað?
Bókmenntamoli: Það eru víst fæstir sem kannast við rithöfundinn Megan Miranda. Hún er höfundur sem fyllir stóran flokk höfunda sem útgefendur kalla „midlist“. Það er höfundar sem skila af sér góðu verki, fá fyrirtaks dóma en selja fáar bækur. Í ágúst gerðist það svo að leikkonan og kvikmyndaframleiðandinn Reese Witherspoon valdi bók hennar The Last House Guest í bókaklúbbinn sinn. Þetta er happdrættisvinningur bandarískra höfunda og á bók Megan Miranda örugglega eftir að seljast í bílförmum. Nú er Reese Witherspoon orðin svo áhrifamikil í bandarísku bókmenntalífi að ef hún ákveður að velja bók í klúbbinn sinn getur það þýtt auka milljón bóka sölu. Í september 2018 valdi hún til dæmis bókina Where the Crawdads Sing eftir alóþekktan höfund, hina sjötíu ára gömlu konu Deliu Owens. Bókin hafði verið prentuð í 27.500 eintökum. Eftir að bókin var kynnt í bókaklúbbnum hafa 1.3 milljónir bóka verið prentaðar og bókin hefur setið í 52 vikur á New York Times metsölulistanaum.
Á Íslandi hefur enginn einstaklingur slík áhrif á bókasöluna. Egill Helgason getur lyft sölu á bókum, fái bókin athygli í Kiljuþætti hans í sjónvarpinu, Kolbrún Bergþórsdóttir gat á árum áður, þegar dagblöðin voru sterkari, kynt vel undir sölu ákveðinna bóka.