Espergærde. Safn nóbelshöfunda.

Það gerist ekki oft – það hefur í rauninni aldrei fyrr gerst – að ég komi inn á skrifstofu mína og setjist í stólinn minn án þess að fara úr jakkanum og sitja þannig næsta klukkutíma án þess að gera neitt annað en að stara út í loftið. En þetta er raunveruleikinn, þetta gerðist. Menn hljóta að spyrja sig hvað ami að hinum langa Íslendingi? Ég segi eins og Ólafur Jóhann í þekktu sjónvarpsviðtali: „Vel er spurt.“

En það amar ekkert að mér annað en að ég vissi ekki hvað ég átti að taka mér fyrir hendur. Ég átti úr þremur möguleikum að velja en ég fékk ekki rifið mig upp úr hugsanadjúpinu til að koma einhverju í verk. En til að létta áhyggjur þeirra sem urðu áhyggjufullir er ég tekinn til starfa. Allt á fullu. Yo!

Ég leyfi mér að birta mynd (af því að mér þykir gaman að þessari mynd) úr afmælinu á laugardaginn af afmælisbarninu Eiríki sem stendur með Kaldal og Kalman sér við hlið.

Mynd úr afmælisveislu Eiríks. Í bakgrunni myndarinnar má sjá málverk af Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Bókmenntamoli. Bókmenntaverðlaun Nóbels verða afhent fimmtudaginn 10. október eins og fleiri góð bókmenntaverðlaun. Bæði verða veitt verðlaun fyrir árin 2018 (skandalárið) og 2019. Veðbankarnir eru byrjaðir að taka við veðmálum og er staðan þannig í dag, 1. október, að kanadíska skáldið Anne Carson þykir nú, skv. veðbönkum, sú líklegasta til að hreppa hnossið. Anne Carson er fædd árið 1950 og er prófessor í McGill háskólanum í Montreal í klassískum fræðum. Þekktust er hún fyrir ljóðagerð sína og þýðingar á klassískum verkum úr grísku.
Hér er listinn:
Anne Carson 4/1
Maryse Condé 5/1
Can Xue 8/1
Haruki Murakami 8/1
Lyudmila Ulitskaya 8/1
Ngugi Wa Thiong’o 8/1
Margaret Atwood 10/1
Marilynne Robinson 10/1
Olga Tokarczuk 10/1
Péter Nádas 10/1
Mircea Cartarescu 14/1
Ismail Kadaré 17/1
Javier Marías 20/1
Jon Fosse 20/1
László Krasznahorkai 20/1
Milan Kundera 20/1
Peter Handke 20/1

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.