Espergærde. Ofur-fimmtudagur

Það eru tíðindi í minni litlu veröld þegar Nick Cave sendir frá sér nýja hljómplötu. En það gerðist nefnilega í fyrradag og á meðan ég skrifa þessi orð hljómar myrkur söngur tónlistamannsins af nýju plötunni Ghoosten. Hér er Spotify-linkurinn fyrir þá sem eru áhugasamir.

Númi sagði mér í morgun að 66% bandarískra kjósenda telja sig ánægða með störf Donalds Trump forseta Bandaríkjanna og munu kjósa hann aftur í næstu forsetakosningum. Ég á erfitt með að skilja þetta og komst að þeirri niðurstöðu að í heiminum eru að minnsta kosti tveir hópar sem ekki skilja hvorn annan og tala ekki sama tungumál; ég og sá hópur sem ég tala við og svo er það hópurinn hans Trumps og þeir sem skilja sálarlíf hans.

Það er sjö stiga hiti úti nú þegar klukkan er fimm mínútur yfir níu á laugardagsmorgni. Ég ætla út að ganga og er að velta fyrir mér hvaða hljóðbók ég eigi að setja í gang á meðan göngunni stendur.

Bókmenntamoli. Í Bretlandi hafa bóksalar og bókaútgefendur þróað fyrirbæri sem kallast Ofurfimmtudagur (Super Thursday). Þetta er fyrsti fimmtudagur í október og þá koma flestar þær bækur sem eiga að gleðja bókakaupendur fyrir jól. Í fyrradag lentu 426 nýir harðspjaldatitlar á borð bókabúðanna (í fyrra á sama degi voru titlarnir 544). Meðal bóka sem komu út í gær er ný bók eftir Zadie Smith, (smásagnasafnið Grand Union). Ný bók eftir Philip Pullman sem segir frá söguhetjunni Lýru eftir að hún varð fullorðin. Bill Bryson sendir frá sér nýja bók og Jojo Moyes.

Bókmenntamoli 2. Er hugmyndin um að lítill hópur sérfræðinga, flestir háskólagengnir, hafi sérstaka visku og hæfileika til að velja verk sem hefur framúrskarandi bókmenntaleg gæði. Er til sá hópur sem hefur lykilinn að því hvað er svo gott bókmenntaverk að það verðskuldi stærstu bókmenntaverðlaun veraldar. Það er að minnsta kosti kominn brestur í undirstöður Nóbelsakademíunnar. En til að skemmta lesendum sínum valdi dagblaðið Politiken (þar er sérstakur kálfur helgaður bókmenntum einu sinni í viku) 10 rithöfunda sem blaðið gæti hugsað sér að fengju hinn eftirsóttu Nóbelsverðlaun. Listinn er svona:

1 | Olga Tokarczuk. Fædd í Póllandi árið 1962. Hún vann Man Booker International-verðlaunin í fyrra og hafa bækur hennar í kjölfarið verið þýddar á mörg evrópsk tungumál.

2 | Marilynne Robinson. Bandaríska prestsdóttirin sem er af mörgum talin einn gáfaðasti esseyisti veraldar með sínar guðfræðilegu og heimspekilegu vangaveltur. Á íslensku hafa tvær bækur komið út í íslenskri þýðingu Karls Sigurbjörnssonar: Gilead og Heima.

3 | Margaret Atwood. Kanadíski rithöfundurinn sem fékk nýja og enn meiri frægð eftir HBO gerði nýja þáttaröð byggða á bók hennar Saga þernunnar sem kom út í íslenskri þýðingu (Ingunn Ásdísardóttir?) fyrir nokkrum árum.

4 | Karl Ove Knausgård. Norski rithöfundurinn sem er þekktastur fyrir sex binda sjálfsævisögulegt verk Min kamp. 1-6.
5 | Jonathan Franzen. Bandaríski fuglaskoðarinn og höfundur hinna stóru skáldverka um bandarískan samtíma. Hann hefur kyn (karl), húðlit (hvítur), aldur (miðaldra) og fæðingarstað (Bandaríkin) á móti sér þegar Nóbelsnefndin kemur saman til að velja verðlaunin.

6 | Michel Houellebecq. Hinn franski rithöfundur sem skyndilega er orðinn ofurstjarna á himni bókmenntanna. Ekki eru margir sem trúa að nefndin þori að gefa þessu „skelfingarbarni“ verðlaunin. Ég ræddi við hann um verðlaunamöguleikann á ferðum mínum um París fyrir nokkrum mánuðum. Hann brosti að tilhugsuninni.
7 | Ngugi wa Thiongo. Hann er fæddur í Kenya árið 1938 og hefur í mörg ár verið orðaður við verðlaunin. Þykir sumum kominn tími að fulltrúi afrískra bókmennta hljóti heiðurinn.

8 | Haruki Murakami. Í mörg ár hefur Murakami verið meðal þeirra sem veðmálafyrirtækin hafa haft ofarlega á lista sínum. Hinn sjötugi Murakami er fæddur í Tokyo og hafa bækur hans notið ómældra vinsælda. Sumir telja hann of léttvægan til að hljóta náð fyrir augum akademíkerana.
9 | Ian McEwan. Íslandsvinurinn og Englendingurinn á ekki möguleika segja flestir. Síðast fékk Kazuo Ishiguro verðlaunin og ekki getur nefndin verið þekkt fyrir að velja Englending tvö ár í röð. En McEwan kann að segja sögu.

10 | Jon Fosse. Norðmaðurinn sem skrifar síendurteknar stuttar setningarnar og nær þannig að dáleiða marga lesendur. Hann er af mörgum talinn líklegur til að vinna verðlaunin.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.