Nú er það svo, að hér á Kaktusnum eru kynntir nýjustu straumar og stefnur á 21. öld. Vilji maður vita hvert hugur 21. aldarinnar stefnir þá er það nákvæmlega hér sem maður fær þær upplýsingarnar. Yo!
Og nú verður kynnt það sem er það alnýjasta á 21. öld, það sem kallast ofurkraftar 21. aldarinnar. Og hvað er nú það? Það er hin svokallaða djúpvinna, vinna þar sem maður einbeitir sér að einu verkefni, án truflunar og sekkur sér niður í viðfangsefnið klukkustundum saman (að vísu er fjórir tímar í senn hámark). Rannsóknir sýna að venjulegur skrifstofumaður á evrópskum kontór, eða bara hvaða borgari sem er, tékkar á tölvupósti, eða annars konar digital skilaboðum (facebook, twitter, snapchat, fréttir í dagblöðum á netinu) að meðaltali níu sinnum á klukkutíma, eða einu sinni hverja sjöundu mínútu. Fæstir eru því óhæfir að sökkva sér niður í djúpvinnu. Því fæstir ná eða geta einbeitt sér að einu verkefni lengur en í sjö mínútur í einu. En einmitt djúpvinnan virðist gefa mannskepnunni miklu meiri gleði, ánægju og fullnægju. Að sama skapi eykur einbeitingarskortur og rótleysi stress og vanlíðan.
Til að vinna gegn þessari þróun hafa margir ofurhugar (ný merking) tekið til sinna ráða. Bill Gates, til dæmis hefur fyrir vana að draga sig í hlé eina viku í senn, mörgum sinnum á ári, til þess að fá algeran frið til að sökkva sér niður í lestur og hugmyndavinu þar sem engin truflun er.
Sagt er að þessi eiginleiki að einbeita sér lengi og órofið að einu verkefni leiði af sér ofurkrafta. Maður er fljótari að læra á þennan hátt, fljótari að tileinka sér nýja þekkingu og afköstin margfaldast. Þetta lærði ég i gær í samtali við sérfræðing í heilarannsóknum.
Bókmenntamoli: J.K Rowling, fyrirmynd mín í mörgu, hefur líka fyrir vana að draga sig í hlé þegar hún vinnur að bókum sínum. Það eru margir sem vilja ná sambandi við höfundinn og ef hún opnar gáttir sínar kemur flóðbylgja áreita sem truflar hana frá skrifum. Þegar J.K Rowling var að ljúka við að skrifa sjöundu og síðustu bókina í bókaflokknum um Harry Potter ákvað hún að draga sig í hlé. Val hennar var kannski svolítið sérkennilegt því hún ákvað að setjast að á fimm stjörnu (stjörnurnar gefa til kynna þægindastig hótelsins og eru fimm stjörnur hæsta mögulega þægindastig en ein stjarna það lægsta) hóteli í Edinburgh (heimabæ hennar) og innritaði sig á Balmoral hótelið í 180 fermetra svítu (herbergisnúmer 552). Í þessu stóra hótelherbergi, með efsta þægindastig, sat Rowling einbeitt í 10 daga og skrifaði. Þann 11. janúar árið 2007 skrifaði hún síðustu setnginuna og setti hún endapunktinn á bókina. Á bréfsefni hótelsins ritaði hún svo: „Hér kláraði JK Rowling söguna um Harry Potter og Dauðadjásnin þann 11. janúar 2007.“
Hér er mynd af hótelinu hennar Rowling.
