Kastrup. Hulunni svipt …

Enn á ný í flughöfninni í Kastrup á leið til Íslands. Ég lendi seinni partinn í dag í Keflavík og verð á Íslandi alveg fram til 19. október. Ég mætti því ekki á skrifstofuna mína í morgun. Ég sá þó til þess að “bók vikunnar” (ugens bog: Óhuggandi eftir Kazuo Ishiguro) fer í skrifstofugluggann á föstudaginn (það er maður sem hefur tekið að sér í verkið) og bókin verður þar í næstu viku.

Á Íslandi verður nokkuð þétt dagskrá á mér þar sem ég svipti hulunni af leyniverkefninu Fellibylurinn Betsy á fimmtudag. Morgunblaðið hefur fengið veður af litla leyniverkefninu mínu og hefur spurt hvort ég vilji tala við þá á morgun um verkefnið. Ég hef jánkað því. Ég er því spenntur og hef verið nokkuð eða allstrekktur síðustu daga.

Ég horfði á heimildarþáttaröð á Netflix um Bill Gates í gærkvöldi. Hann er áhugaverður maður þessi sérkennilegi tölvunörd. Þættirnir eru mjög vel gerðir og draga upp athyglisverða mynd af einstökum manni. Að hugsa sér að Bill Gates geti lesið 150 blaðsíður á klukkutíma og munað allt sem hann les og þar að auki greint og myndað sér skoðanir um innihaldið. Hann er eins og ofurtölva. Ég vildi að ég hefði bara brot af þessari svakalegu heilaorku.

Bók næstu viku: Óhuggandi, Kazuo Ishiguro.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.