Hvalfjörður. Næturgestir

Ég kom hingað í mitt fína hús í Hvalfirðinum í gærkvöldi. Það var svo dimmt þegar ég keyrði upp malarveginn að húsinu að ekki sást nema faðmlengd til hvorrar handar þegar ég hafði slökkt á bílljósunum. Úr norðaustri blés töluvert hvass vindur svo ég þurfti að hafa mig allan við til að fjúka ekki út í móa þegar ég gekk spölinn að húsinu með ferðatöskuna mína í annarri hendi. Mér tókst eftir nokkuð puð að stinga lyklinum í dyraskránna því nær ómögulegt var að sjá handa sinna skil.

Ég kom mér makindalega fyrir eftir að hafa gengið frá farangrinum. Ég hellti mér upp á kaffi, dró fram samlokuna sem ég hafði keypt, setti nýju plötuna hans Nick Cave á fóninn. En það undarlega var að mér fannst eins og fylgst væri með mér. Úti var auðvitað niðamyrkur og engan að sjá úti. Mér fannst ég heyra þrusk og hafði þessa sterku tilfinningu að einhver horfði á mig úr kvöldmyrkrinu í gegnum stóra stofugluggann þar sem ég sat inni í upplýstu húsinu.

Ég er ekki hræddur að vera einn í myrkri en samt fann ég fyrir ónotakennd við tilhugsunina að hafa einhver væri lúrandi í myrkrinu. Ég var nýsestur niður fyrir framan samlokuna mína, svangur eftir ferðalag dagsins, þegar bankað er að dyrum. Þetta fannst mér undarlegt að einhver væri hér úti í einskismannslandi og bankaði á dyrnar hjá mér á þriðjudagskvöldi. Ég herti upp hugann og gekk út í gang og þar stóðu tveir menn, ég sá ekki betur en þeir væru sótugir í framan og héldu á verkfærakassa.
„Gott kvöld,“ sagði ég og horfði tortrygginn á mennina tvo.
„Gott kvöld,“ sagði annar þeirra.
„Við ætluðum bara að kveðja. Við höfum verið að vinna hér í lögnum fyrir neðan húsið. Við erum búnir.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.