Hvalfjörður. Gleði einfarans

Nú hefur margt breyst, finnst mér, eftir að ég er opinberlega höfundur að bók. Ég hef haldið því svo lengi leyndu að ég væri að skrifa sögu. Ég var auðvitað feiminn við að föndra við bókarskrif og var ekkert að flíka þeim. En nú er þetta opinbert og ég get gengist við bókinni sem nú er komin út: Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins. Það liggur samt ekki í eðli mínu að ég fari að hampa þessum skrifum mínum eða monta mig af bókinni.

Í gærmorgun tók ég sem sagt við verðlaunum fyrir þessa barnabók sem ég hafði sent inn í handritasamkeppni. Það er langt síðan mér var sagt að ég hefði unnið samkeppnina og það er líka langt síðan mér var tilkynnt að við dagskrá þann 10. október yrði gert opinbert hver hefði borið sigur úr bítum. Ég hafði ekki ætlað mér að láta mitt fólk vita af þessari dagskrá heldur hafði ég hugsað mér að fara bara einn með Sus og veita verðlaununum viðtöku. Ég er að sumu leyti ægilegur einfari, vill helst ekki vera að trufla fólk með lífi mínu og eiginlega bara best að klára allt sjálfur, hinn sanni Sumarhúsbóndi. En Æsa, hinn stórkostlegi ritstjóri minn á Forlaginu hvatti mig til að boða mitt fólk til athafnarinnar. Það var vel athugað hjá henni, þarna hafði hún rétt fyrir sér eins og oftast áður.

En ég fann, þegar ég stóð í ræðupontunni með verðlaunaskjalið og blómvöndinn í hendinni, hvað ég var ótrúlega glaður að sjá Sus, krakkana mína, Öglu og Styrmi, bróðir minn og vini mína mætta til að samfagna mér við þessa athöfn og ég fann hvað mér þótti gott að þau voru þarna. Ég var bæði glaður, stoltur að taka við verðlaununum og eiginlega má segja að ég hafi fundið fyrir þessar sjaldgæfu, skammvinnu hamingjukennd sem stundum hellist skyndilega yfir mann. Þótt mörgum þyki afrekið kannski ekkert merkilegt þótti mér að ég hefði afrekað eitthvað sem mér þótti mikilvægt.

Í gær fékk ég svo nokkrar hamingjuóskir frá þeim sem þekkja mig og það fannst mér ánægjulegt. En nú er kominn nýr dagur og Hvalfjörðurinn með öllu sínu birtuspili blasir við mér í gegnum gluggana. Allt er fallegt.

Bókmenntamoli. Ég kláraði nýja bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur í fyrradag. Bókin heitir Aðferðir til að lifa af. Þetta er góð bók hjá Evu, rosalega góð. Þegar ég las Aðferðir til að lifa af, hugsaði ég oft með mér hvað það væri mikill fágun yfir skrifunum; léttleiki og öryggi. Hún hefur náð alþjólegum klassa með þessari sögu. Ég hef alltaf verið að bíða eftir að Guðrún Eva tæki þessa stefnu, veldi einfaldleikann og skýrar línur. Við vorum ekki sammála um bók hennar Yosoy þegar hún skilaði því handriti til mín á Bjart ári 2004. Mér fannst bókin of þvælin, loðin og óskýr en hún var ekki sammála því og valdi að fara með bókina til Forlagsins sem gaf hana út árið eftir. En ég er ekki í vafa um að þessi stíll, þessi einfaldleiki og látleysi sem ég vonaðist eftir, klæði skáldskap Guðrúnar Evu betur. Mér finnst nýja bókin hennar að minnsta kosti áhrifamikil í einfaldleika sínum. Áhrifameiri, skemmtilegri og meira gefandi en fyrri bækur hennar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.