Hvalfjöður. Þróun mála

Eftir atburði síðustu daga hefur fjölskylda mín tekið upp á að stríða mér á nýjan hátt. Nú er ég kallaður „forfatteren“ af fjölskyldumeðlimum. Og ég má ekki varla hóst aða stynja án þess að ég fái að heyra það; „úps, forfatteren er svangur“ eða „úps, forfatteren finnur ekki gleraugun sín“ … Síðast í gær fórum við Sus inn til Reykjavíkur þar sem hún tók að sér að kaupa inn í Hagkaup á meðan ég hitti ljósmyndara og fór í útvarpsviðtal. Ég tafðist auðvitað og þurfti mín góða kona að norpa fyrir utan stórmarkaðinn með innkaupapoka í appelsínugulri innkaupakörfu „en forfatteren talaði við fjölmiðla og sat fyrir hjá ljósmyndara.“ Þetta fékk ég að heyra nokkrum sinnum í gær og öllum vinkonum hennar var gert viðvart um þessa nýju þróun mála í hjónabandinu.

Ég man alltaf eftir því að einu sinni fyrir langalöngu sagði Hallgrímur Helgason frá því í viðtali að hann fletti bara dagblöðunum til að athuga hvort eitthvað væri skrifað um hann. Mér fannst þetta á sínum tíma bæði fyndið, djarft og skemmtilega mikil sjálfshæðni í þessu. Ég get þó sagt, og það er ekkert fyndið, að ég hef enn ekki náð þessum hæðum á ferli mínum því ég forðast að lesa blöðin ef ég veit að það birtast viðtöl við mig og passa að slökkt sé á útvarpi hafi ég verið í útvarpsviðtali. Ég sting höfðinu ofan í sandinn.

Í dag fyllist húsið hér í Hvalfirði. Arkitekt hússins kemur með fjölskyldu sína og verða þau hér í viku. Og með sama flugi koma Davíð og Númi. Hér verður því fullt hús næstu daga.

Bókmenntamoli: Nú hefur heimurinn fengið tvo nýja Nóbelsverðlaunahafa og kannski í anda vorra tíma að valinn hefur verið einn Nóbelshöfundur per kyn; einn karl og ein kona. Ég held að bæði séu þau vel að verðlaununum komin þótt ég þekki alls ekki höfundaverk þessara góðu höfunda. Ég hef lesið tvær bækur eftir Handke en enga eftir Olgu. Ég veit að heima í bókahillu er bók á dönsku sem heitir Rejsende. Og hana hef ég nú hugsað mér að lesa því ég er forvitinn að sjá hvað Olga hefur að segja. Ég las þó þessa málgrein eftir hana í morgun og þótti hún bara fín: „Sá sem leitar eftir röð og reglu ætti að forðast sálfræðina og velja frekar að lesa lífeðlisfræði eða guðfræði. Þar stendur maður að minnsta kosti á föstum grunni, annaðhvort efnislega eða andlega og þar skríður sálin ekki undan fótum manns. Sálin er nefnilega mjög óljóst rannsóknarefni. “

ps. Annars dreymdi mig svo undarlegan draum í nótt að ég vaknaði upp með andælum með hjartslátt og læti. Í draumnum sat Eiríkur Guðmundsson upp við dogg í bláu lopapeysunni sinni, hafði samt sæng yfir sér og ég húkti á rúmstokknum við hlið hans. Svo segir þessi grjótharði útvarpsmaður við mig. „Þú manst að biðja fyrir mér, Snæi?“
„Auðvitað, Eiríkur minn, ég bið fyrir þér á hverjum degi,“ svaraði ég. Það var eitthvað svo óhuggulegt við þessa senu að ég átti erfitt með að sofna aftur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.