Staðan að morgni sunnudags. Það er ljós í kirkjunni við fjörðinn, Saurbæjarkirkju; sennilega er djákninn að undirbúa guðsþjónustu dagsins. Snjóhvítar Botnssúlurnar rísa upp í skýjahuluna í botni fjarðarins og ljósið í þessari kyrru mynd af fjalli, hafi og skerjum minna mig á málverk eftir Georg Guðna.
Ég ætlaði ekki að skrifa um mitt nýja hlutverk sem höfundur barnabókar; eins og ég geti ekki hugsað um annað. En það er nú samt svo að útgáfa þessarar fyrstu bókar minnar fyllir ansi mikið í höfðinu á mér. Ég hugsa um hvað ég eigi að segja í útgáfuhófinu á þriðjudag, hvað ég eigi að leggja áherslu á þegar ég tala við Egil Helgason á mánudaginn og draumar mínir eru fullir af vangaveltum um athafnir nýbakaðs höfundar. Þetta væri sem sagt hálfgerð lygadagbók ef ég minntist ekki á það sem hrærist í huga mér. En ég reyni þó að ýta þessum bókahugsunum frá mér því ég hef gesti frá útlöndum hér í húsinu. Sem gestgjafi get ég ekki gengið um með höfuðið uppi í skýjunum.
Annað sem fyllir kollinn á mér eru allar þær kveðjur sem ég fæ – allar einstaklega hjartnæmar og velviljaðar – og hvernig ég finn stund frá gestgjafahlutverkinu til að þakka þeim sem gefa sér tíma og sýna slíkt hjartans örlæti að segja eitthvað fallegt við mig. Í nótt þegar ég barðist við svefninn hringsnerust í höfðinu á mér öll þakkarbréfin sem ég ætlaði að muna að senda.
Þetta var skýrsla um örþjáningar hins nýbakaða bókarhöfundar.
Bókmenntamoli. Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2019 voru veitt austuríska rithöfundinum Peter Handke og hefur það vakið reiði margra listamanna og áhugafólks um bókmenntir. Salman Rushdie, Hari Kunzru, Slavoj Žižek og PEN samtökin í Bandaríkjunum hafa til dæmis fordæmt verðlaunaveitinguna til Handke. Ástæða þess er að austuríski rithöfundurinn studdi opinberlega Serbana í Balkanstríðinu og bauðst síðar til að vitna í máli Slobodan Milosevic fyrir alþjólega glæpadómstólnum í Haag og hann mætti líka í jarðarför leiðtogans árið 2006. Þessi stuðningur Handke hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og þykir mörgum að ekki sé rétt að veita verðlaun til manns með slíkar skoðanir. Sjálfur segir Handke að mynd hans af stríðinu á Balkanskaga sé miklu dýpri og taki miklu fleiri þætti inn en sú yfirborðslega mynd sem fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa dregið upp. „Þetta eru allt saman skúrkar,“ segir Handke og vísar til hinna stríðandi aðila. En sú spurning stendur eftir: Á ekki að veita rithöfundum með óæskilegar skoðanir bókmenntaverðlaun Nóbels? Þetta eru bókmenntaverðlaun, ekki verðlaun í góðu siðferði. Flestum þætti örugglega óhæft að veita til dæmis Adolf Hitler bókmenntaverðlaun hefði hann verið einstakur rithöfundur. Því er spurt: Hvar liggja mörkin? Hvenær eru skoðanir og athafnir rithöfundar svo siðferðalega rangar að mati heimsins að ótækt sé að veita honum/henni verðlaun fyrir framúrskarandi bókmenntaafrek? Er stuðningur við Slobodan Milosevic handan þessara siðferðilegu landamæra?