Hvalfjörður. Siglingar kafbáta

Ég hef furðað mig á því að á meðan dvöl minni hér í Hvalfirði hefur staðið (ég kom sl. þriðjudag) hef ég þrisvar sinnum séð varðskip sigla inn fjörðinn. Ég held að þetta sé varðskip (og í mínum huga er þetta Árvakur því skipið er lítið) en einhver minntist á það við mig að þetta gæti verið danska vaktskipið Vædderen. Ég veit ekki hvað varðskipið er að vakta eða passa hér inni í firðinum þar sem engin fiskiskip sigla. En mér dettur helst í hug að þeir séu að leita að kafbáti. Fjörðurinn er djúpur og er víst kjörinn siglingarleið fyrir kafbáta sem vilja lauma áhöfn sinni í land.

Bókarhöfundurinn, eða forfatteren, hélt haldið ró sinni í gær, tók á móti gestum og einbeitti sér að því að bera fram veitingar og ganga langan göngutúr niður í fjöru og aftur til baka með gestum sínum. Tíðindi frá „foreign rights“-deild Forlagsins náðu ekki einu sinni að raska ró og yfirvegun. Þó var eitt atriði sem truflaði hin yfirvegaða huga. Ég hafði fengið það verkefni frá Forlaginu að setja kynningu á „útgáfuhófi“ sem er á þriðjudagssíðdegi (morgun) vegna útgáfu bókarinnar minnar á Facebook. Ég er ekki meðlimur Facebook og því fannst mér ég þurfa að biðja mitt fólk, sem kann á þennan miðil að setja kynninguna inn fyrir mig á sína eigin facebooksíðu. Mér fannst hálfskammarlegt að biðja fólk um þetta en ótti minn um að vera einn í eigin útgáfuhófi var skömminni yfirsterkari.

Bókmenntamoli: Í dag verður tilkynnt hver hlýtur hin eftirsóttu BOOKER-verðlaun. Sex bækur eru tilnefndar:
1. Margaret Atwood The Testaments. Þetta er sú bók sem þykir líklegust að hreppa hnossið. Atwood hefur náð að framlengja lífdaga sína (gengið í endurnýjun lífdags sinna) eftir að HBO framleiddi og sýndi þættina um Handmaids Tale sem hafa notið gífurlegra vinsælda. Þessi bók, The Testaments, er einskonar framhald bókarinnar um sögur þernunnar og hefur fengið fína dóma gagnrýnenda.
2. Önnur bók Chigozie Obioma  An Orchestra of Minorities er líka tilnefnd eins og hans fyrsta bók The Fishermen.
3. Girl, Woman, Other eftir Bernardine Evaristo er saga tólf svartra enskra kvenna.
4. 10 Minutes 38 Seconds in This Strange World eftir  Elif Shafak. Þetta þykir sumum versta bók höfundarins og minna sumir á að Ian McEwan vann Bookerverðlaunin fyrir Amsterdam sem þeir sömu segja að sé versta skáldsagan hans.
5.  Ducks, Newburyport eftir Lucy Ellmann. Þetta er 1040 síðna bók en sagan er þó aðeins sögð í átta setningum. Þykir mörgum þetta óárennilegt verk en þeir gagnrýnendur sem hafa náð að lesa bókina hafa flestir sagt að þetta sé ógleymanleg bók.
6. Salman Rushdie. Quichotte. Rétt eftir að tilnefningar til Bookerverðlaunanna voru tilkynntar var Rushdie (ásamt Atwood) talinn líklegastur til að hljóta verðlaunin. Nú nokkrum vikum síðar telja fæstir að þessi bók hans, sem þó hefur fengið stórfína dóma, líklega til afreka á Bookerhátíðinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.