Hvalfjörður. Ævintýri gerast enn

Þetta er nú meira ævintýrið fyrir mig að hafa fengið útgefna þessa bók sem ég skrifaði í fyrra, Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins. Ég er í hálfgerðri sæluvímu yfir hvað fólk – alls konar fólk, líka fólk sem ég hef ekki hitt í áratugi – sýnir mér mikla góðvild. Til mín streyma hamingjuóskir alls staðar að, bæði með tölvupóstum, messenger, sms-um og líka þegar ég geng út á götu víkur fólk, sem ég þekki ekki einu sinni, sér að mér til að segja eitthvað fallegt. Og svo er Frankfurtmessan farin í gang og Vala hjá „foreign rights“’-deildinni hjá Forlaginu kyndir aldeilis undir spennunni hjá mér með alls kyns skemmtifréttum og óstaðfestum orðrómi. Ég skil ekkert í sjálfum mér að hafa ekki skrifað bók fyrr á ævinni.

En ég er þó ekki svo langt leiddur að ég sé andsetinn af bókinni minni og útgáfu hennar og geti ekki hugsað um annað. Ég hef ekki einu sinni tíma til þess. Hér í Hvalfirði er húsið fullt af gestum frá útlöndum og það þarf að sinna Íslandskynningu; spjalla, segja sögur, finna hestaleigu, heimsækja fræga og fallega staði, búa til mat og ganga frá.

Bókmenntamoli. Í fyrsta skipti í þrjátíu ár ákveður dómnefnd Bookerverðlaunanna að þessu sinni að skipta verðlaunum í tvennt og heiðra bæði Margaret Atwood og Bernardine Evaristo fyrir bækurnar The Testaments og Girl, Woman, Other. Þar með var að minnsta kosti tveimur nýjum áföngum náð með Booker-verðlaunum. Í fyrsta sinn hreppir svört kona verðlaunin og Margaret Atwood, sem nú er 79 ára, er elsti vinningshafi í sögu Bookerverðlaunanna.
Margaret Atwood sýndi á sér hinar góðu hliðar þegar hún tók við verðlaununum og sagði að henni væri satt að segja létt að hún skyldi deila verðlaununum með sér yngri rithöfundi. „Það hefði hreinlega verið neyðarlegt að svona gömul kerling eins og ég hefði komið í veg fyrir að góðir, yngri höfundar í upphafi ferils síns, fengju að njóta verðlaunavímunnar. Hún ætlaði sjálf að gefa verðlaunaféð til góðgerðarsamtaka því hún væri „orðin og gömul, og ætti of margar handtöskur, til að geta eytt fénu á sjálfa sig.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.