Hvalfjörður. Er heimurinn að gera grín að mér?

Í gærdag klukkan 17:17 sat ég inn í bókabúð Eymundsson, áritaði bækur og hristi höfuðið yfir sjálfum mér og tilverunni. Þetta er eins og að lifa í draumi hugsaði ég; skyndilega sit ég eins og hver önnur rokkstjarna og gef eiginhandaráritanir. Er heimurinn að gera grín að mér? En þarna í kílómetra langri (grín) áritunarröðinni kom allt í einu til mín sjálfur Ragnar Helgi Ólafsson, sá mikli fjöllistamaður og hugmyndamógúll, og fékk mig til að skrifa í bók fyrir hann. Hann benti mér á að það væri gamla forlag pabba hans sem væri hinn formlegi útgefandi bókarinnar, Vaka. Þótt ég, sem ungur maður hefi aldrei verið mikill Vökumaður – ég var svo óþroskaður og fylgdi straumum míns hóps – var ég glaður að heyra að Ragnar Helgi taldi að Ólafur Ragnarsson útgefandi hefði verið ánægður að fá mig undir fána Vöku. En bætti Ragnar Helgi við: „Ég er forvitinn að sjá hvernig barnabók þú skrifar, ég er viss um að þetta sé enginn barnabók.“

Hugmyndamógúllinn Ragnar Helgi stendur yfir bókahöfundi, gerir grín og skellihlær. (Mynd: Reuter-fréttastofan)

En þetta er nú líf mitt þessa dagana, að snúast í kringum bókina sem ég álpaðist til að skrifa, ég get ekki gert að því að útgáfan tekur mest af hugarplássi mínu þessa dagana.

Bókmenntamoli. Fyrsta prentun af Harry Potter og viskusteinninn var víst einungis 500 eintök, segir í frétt á BBC, ekki 1500 eintök eins og yfirleitt hefur verið haldið fram. Bókin kom út í júní árið 1997. 300 af þessum 500 bókum voru seldar til bókasafna víðs vegar um England. Í gær var haldið uppboð á eintaki af þessari frægu bók í flokknum um Harry Potter. Þetta var fullkomið eintak úr fyrstu prentun sem hafði verið geymt í 20 ár niður í læstri skjalatösku. Sólin hafði ekki náð að skína á eintakið í eina sekúndu svo það var eins vel varðveitt og hægt var. Söluverð bókarinnar á uppboðinu var 9.000.000 íslenskra króna. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.