Hvalfjörður. Þröskuldur nagaður

Á leið minni – með mína útlensku gesti – út í hina sunnlensku náttúru stoppaði ég í bókabúðinni á Selfossi: Bókakaffi Selfoss (eða eitthvað í þá áttina). Bókabúðin liggur á aðalveginum – sem liggur inn og út úr bænum – en þegar ég kom þar að virtist allt slökkt og eymdarlegt. Ég hafði hlakkað til að koma við í búðinni. Klukkan var rétt rúmlega tíu að morgni og mér datt ekki í hug að búðin opnaði svo seint um daginn. Ég steig út úr bílnum og gekk upp að bygginguna sem hýsti þessa marglofuðu bókabúð og tók í hurðarhúninn en það var læst og lokað, lokað og læst. Ég varð satt að segja fyrir töluverðum vonbrigðum því ég hafði kannski haft of stórar væntingar til búðarinnar og hlakkað of mikið til að kaupa tvær bækur sem ég hef hugsað um síðustu daga og ákveðið að bæta í minn ágæta bókakost. Hvaða bækur ætli hafði sveimað um í huga hins stórnefjaða fyrrum bókaútgefanda? Jú, það var ný bók eftir Gyrði Elíasson: Skuggaskip. Hin bókin var eftir sama höfund og ber heitið Koparakur.

Ég segi ekki að ég hafi grátið á þröskuldi bókabúðarinnar en líkamleg viðbrögð við þessum stutta afgreiðslutíma bókabúðarinnar voru greinileg; mig langaði að stappa niður fæti og reka upp lítið gelt til að tjá vonbrigði mín. Ég þráaðist við, starði vonsvikinn á verslunardyrnar og ákvað að staldraði við fyrir framan búðina. Ég var að snúa við – eftir stundar bið – og ganga til baka til út á bílastæðið þegar ung stúlka kom ganandi með lykil á lofti.
„Vinnur þú hér?“ hálfhrópaði ég og það mátti greina örvæntingu í röddinni.
„Já.“ Hún horfði á mig og ég sá í svip hennar blöndu af furðu og hryllingi. Hvað var eiginlega að þessum langa manni? Hví hrópar hann?
„Má, ég kaupa eina bók, ég verð eldsnöggur?“
Það var tortryggni í augum stúlkunnar og hún svaraði seint um síðir: „jú, bara ef þú ferð ekki líka að biðja um kaffi.“

Á meðan gestir mínir dvöldu við myndatöku á íslenskum náttúrufyrirbærum gat ég laumast mér til ánægju til að lesa kafla og kafla í nýju bókinni hans Gyrðis.

Bækurnar tvær!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.