Nú flýg ég aftur til Danmerkur í dag. Það er langt síðan ég hef dvalið svo lengi á Íslandi, nærri því tvær vikur. Þetta hefur verið viðburðarríkur tími; útgáfa bókar, samtöl við fjölmiðla, útgáfuhóf í Eymundsson, toppsæti á metsölulista, ferðalög um Ísland – bæði Snæfellsnes, suðurströndin og gönguferð til Glyms. Mér hefur þótt gaman að vera hér og notað þessara daga.
Mér finnst satt að segja mjög skrýtið að verða aftur þátttakandi í íslenskri bókaútgáfu, ekki bara vegna þess að ég er kominn hinum megin borðs – nú hef ég sjálfur skrifað bók – heldur líka vegna þess að ég finn aftur fyrir hinni gömlu stemmningu sem einkennir svo mjög íslensku bókasenuna; hver heldur með hverjum og hver hefur horn í síðu annars. Ég hef reynt að leiða þetta hjá mér en ég varð sérstaklega glaður að sjá vini mína á útgáfuhófinu í Eymundsson; mitt lið.
Bókmenntamoli: Hinn 73 ára gamli, írski rithöfundur John Banville er ekki hver sem er. Hann fékk Bookerverðlaunin fyrir bók sína The Sea árið 2005. Að morgni hins 10 október, þegar nóbelsnefndin í bókmenntum var að gera sig tilbúna til að senda út tilkynningu um hver hinn nýi Nóbelsverðlaunahafi væri, sat John Banville við skrifborð sitt og undirbjó viðtal sem hann ætlaði að taka við hinn aldna John le Carré. Njósnasōguhōfundurinn var einmitt að gefa út nýja skáldsögu. Síminn hringdi og á hinum enda línunnar var maður sem kynnti sig sem Mats Malm (en það er einmitt nafnið á nýjum formanni Sænsku Akademíunnar). Mats Malm sagði við John Banville í yfirveguðum tóni að hann hefði fengið það hlutverk að færa írska skáldinu þau tíðindi að hann hefði hlotið Bókmenntaverðlaun Nóbels. Mats hefði þó eina spurningu. Hvort vildi John Banville fá verðlaunin fyrir árið 2018 eða 2019? Síðan las Mats Malm upp texta þar sem nóbelsnefndin rökstuddi ákvörðun sína að veita Banville þessi virðulegu verðlaun.
John Banville varð viti sínu fjær af gleði, hann hringdi í allar áttir til að deila þessum miklu gleðifréttum. Banville hafði náð að hafa sambandi við ansi marga þegar dóttir hans hrindi til að segja að hún væri að horfa á beina útsendingu frá Stokkhólmi þar sem rétt í þessu hefði verið tilkynnt nöfn verðlaunahafanna. „Það var ekki þú, pabbi minn.“
Banville aflýsti veislunni sem hann hafði boðað til og hafði samband við Sænsku Akademíuna sem hefur sett rannsókn í gang til að reyna að finna þann sem hringdi í John Banville og lék írska skáldið svo grátt.