Espergærde. Það sem fyllir hugann

Annan daginn í röð nota ég morguninn til að vafra um skóginn í stað þess að setjast að störfum strax frá fyrstu morgunskímu. Ég byrja ekki á því að hakka á tölvuna heldur geng ég nú fimm kílómetra hring í gegnum skóginn og svo niður í fjöru og aftur hingað upp á skrifstofu. Á göngunni hlustaði ég á hljóðbók til að reyna að nýta tímann.

Ég hugsaði líka á göngunni; það get ég þótt ég sé að hlusta á sögu. Mér varð meira að segja hugsað til þessarar dagbókar (Kaktusinn), um hvað ég ætlaði að skrifa í dag. Ég spurði sjálfan mig hvað sé mér efst í huga og það rann smám saman upp fyrir mér hverju ég velti vöngum yfir þessa dagana:
1) Nú er ég byrjaður að skrifa nýja bók meðfram þýðingum og ég velti fyrir mér bæði plotti og þó sérstaklega einni persónu bókarinnar. Þetta gera bókarhöfundar örugglega; að velta fyrir sér persónum. Og þar sem mér skilst að forlagið mitt á Íslandi sé áhugasamt um að ég skrifi aðra bók er ég byrjaður púsla saman atvikum og því fólki sem tekur þátt í þeim viðburðum sem bókin á að lýsa.
2) Ef ég reikna rétt í huganum eru nú liðnir tíu dagar síðan barnabókin sem ég skrifaði kom út. Ég er alveg í skýjunum yfir viðtökunum. Mér var alls staðar óskað til hamingju, meira að segja flugfreyjan í fluginu til Kaupmannahafnar tók skyndilega í höndina á mér og sagði „gratúlera með verðlaunin“. Ég hafði á tilfinningunni að mjög margir vissu að ég hefði unnið þessi verðlaun. Dagar liðu og fréttir bárust um að útgáfurétturinn væri seldur til Svíþjóðar og Danmerkur; sem sagt algert ævintýri fyrir mig. En nú er ný vika er runnin upp og aftur er kominn hversdagur. Sennilega er ég gripinn hinni svokölluðu höfundarveiki; ég bíð eftir viðbrögðum við bókinni að einhver hafi lesið hana. Ég reyni að segja við sjálfan mig að slíkt skipti engu máli en ég næ ekki að sannfæra sjálfan mig.
2b) Ég hef engan áhuga á að monta mig af þessari bók sem ég hef skrifað, hvorki opinberlega né prívat. Mig langar ekki að hampa henni eða beina athygli að henni á nokkurn hátt. En mig langar að fólk veiti bókinni athygli, taki eftir bókinni og lesi hana. Þetta er einhvern veginn þverstæða.
3) Það er fótboltaæfing á miðvikudaginn og ég velti fyrir mér að taka fram fótboltaskóna aftur. Ég hika samt því ég er hræddur um að ökklinn á mér sé ekki orðinn nógu góður og ég verði aftur haltur ef ég fer að spila fótbolta.
4) Það er komið tilboð í húsið okkar og ólífulundinn suður á Ítalíu. Ég velti fyrir mér hvað það þýðir að selja þennan stað sem við höfum bundist svo sterkum böndum síðustu 16 ár.

Þetta var nokkurn veginn það sem fór í gegnum huga mér á göngunni í skóginum í morgun. Ég hitti engan sem ég þekkti á göngunni bara fjöldann allan af hundum og eigendum þeirra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.