Síðustu daga hef ég alveg vanrækt að skrifa hina svokölluðu bókmenntamola hér á Kaktusnum eins og ég stundaði á tímabili. Það er ekki viljandi. Ég hef verið of upptekinn við að baða mig í gleði og ljósi útgáfu eigin bókar síðustu daga. Ég þjáist af höfundarveiki og þrái sífellt meira klapp. Það liggur við að ég sé farinn að reikna út hvað klukkan sé í Hollywood til að vita hvenær mögulega berast tölvupóstar þaðan. Eða eins og vinur minn orðaði þetta við mig í gær:
„Ég þykist vita hvað þú ert að ganga í gegnum sem höfundur. Maður heldur að sköpun verks ljúki þegar maður setur punkt, þegar maður les síðustu próförk, þegar maður fær bókina í heldur, þegar útgáfuboðinu lýkur, þegar fyrstu lesendurnir fara að láta í sér heyra, en í raun er maður alltaf að bíða eftir næsta ritdómi, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, næsta útgáfusamningi erlendis, þökkum, skömmum, ást, viðurkenningu, útskúfun.“
Þetta er alveg hárrétt en slíkt gengur ekki til lengdar. Ekki fyrir mig. Ég hef hér með sagt skilið við höfundarveikina og nú horfi ég fram veginn, nú lít ég upp og fer að sinna öðrum verkefnum. (Klukkan er núna bara 04:22 í Hollywood, ekkert gerist.) Til dæmis fá bókmenntamolarnir – hið gífurlega vinsæla lesefni sem þjóðin mín, sú íslenska, þráir svo heitt – meiri athygli frá mér
Kaktusinn er held ég suma daga eini opinberi miðilinn á íslensku sem flytur bókmenntafréttir – sumar mikilvægari en aðrar – og ég skammast mín fyrir vanrækslu upp á síðkastið og hef heitið sjálfum mér að taka mig á og reyna að hafa að minnsta kosti einn bókmenntamola á hverjum degi – ja, hve lengi, svo lengi sem ég endist. (Frábærlega löng setning, yo!)
Bókmenntamoli: Í vikunni var tilkynnt að norski stjörnurithöfundurinn Karl Ove Knausgård hefði verið valinn til að skrifa fyrir hið svokallaða Framtíðarbókasafn. Aðalhvatamaðurinn að baki Framtíðarbókasafnsverkefnisins er skoski listamaðurinn Katie Paterson (fædd 1981) sem gróðursetti 1000 tré árið 2014 í skógi sem er í 30 mínútna akstursfjarlægð frá Osló. Trén hyggst hún nota til að framleiða pappír fyrir bækurnar 100 sem eiga að vera skrifaðar á næstu 100 árum og verða gefnar út árið 2114. Í ár er það sem sagt Karl Ove sem á að ánafna bókasafninu handriti að bók sem verður gefin út eftir 95 ár. Á árunum 2014 til 2114 hafa verið og verða valdir 100 framúrskarandi listamenn (að mati nefndar á vegum Framtíðarbókasafnsins), einn á hverju ári, til að skrifa bækur til útgáfu árið 2114. Þeir listamenn sem hafa þegar fengið bókarverkefni fyrir Framtíðarbókasafnið eru:
2014 Margaret Atwood (Kanada)
2015 David Mitchell (England)
2016 SJÓN (Sigurjón B. Sigurðsson) (Ísland)
2017 Elif Shafak (Tyrkland/England)
2018 Han Kang (Suður-Kórea)
2019 Karl Ove Knausgård (Noregur)
Bókmenntamoli 2. Ég tók eftir að Bergþóra Snæbjörnsdóttir er að gefa út skáldsögu í ár. Ég hef ekki lesið bókina en ég hef af einhverjum ástæðum trú á Bergþóru eftir að ég las ljóðabókina Flórída. Ég hef ekki lesið nýju skáldsöguna Svínshöfuð svo ég veit enn ekkert um hana annað en ég hef ákveðið að vekja athygli bókaunnenda á henni og hef hugsað mér að lesa hana sjálfur. Yo!