Í fyrradag hringdi síminn minn. Síminn minn hringir ekki oft. En síðastliðið þriðjudagssíðdegi fann ég fyrir þessum titringi í vasanum þegar einhver úti í heiminum vill ná að tala við mig í gegnum síma. Ég leit á iPhone-skjáinn og sá að númerið, sem ég þekkti ekki, var danskt. Ég bjóst við að heyra rödd sölumanns á línunni, einhvers sem vildi selja mér áskrift að einhverju. En það var ekki rétt. Á hinum enda línunnar var dimmraddaður karlmaður, greinilega yngri en ég. Það var einhver leikur í röddinni svo fyrst í stað hélt ég að verið væri að gera at í mér. En ég hlustaði.
Maðurinn byrjaði að kynna sig og sagðist vinna fyrir danskt kvikmyndafyrirtæki og fyrir TV2-sjónvarpsstöðina.
„Já,“ sagði ég.
„Ég er í sambandi við Íslending sem benti mér á að tala við þig.“
„Nú … já.“
„Hefurðu tíma til að hitta mig á fimmtudag? Mig langar að ræða við þig um bókina þína, um skrif þín … það er ákveðið verkefni sem ég er að fara í gang með.“
Ég hikaði.
„Ég bíð upp á hamborgara og bjór …“ flýtti hann sér að bæta við eins og slík fríðindi myndu tæla mig af stað inn til Kaupmannahafnar.
„Já …“
„Svo ég útskýri aðeins fyrir þér …“ og svo komu langar útskýringar á hugmyndum hans og að hann yrði að biðja mig um að gera ráð fyrir að fundurinn mundi taka langan tíma frá klukkan 12:00 – 22:00 þennan fimmtudag … „Mig langar líka að biðja þig um – áður en við hittumst – að skrifa um einn ákveðinn dag, þann 20. nóvember 2018, og senda mér fyrir klukkan 11:00 á fimmtudaginn. Ég verð búinn að lesa þegar við hittumst. Þetta geri ég í ákveðnum tilgangi.“
Ég ákvað að verða við óskum kvikmyndagerðarmannsins um þennan langa fund og ég hef líka orðið við beiðni hans um að skrifa um 20. nóvember 2018. Þetta minnti mig á dagbók Christu Wolf. Hún skrifaði í mörg ár um einn dag í lífi sínu: þann 27. september. Bara þennan dag og það voru langar skýrslur á hverju ári um þennan tiltekna dag. En ég átti að skrifa um 20. nóvember árið 2018. Ég fletti bæði upp í Fréttablaðinu frá 20. nóvember til að sjá hvað hefði gerst í heiminum og upp í dagbókinni minni í gærkvöldi áður en ég fór að skrifa. Ég sá að ég hafði flogið til Parísar þennan dag og tekið leigubíl frá flugvellinum:
„við stýrið sat aldraður leigubílstjóri Mig grunar að hann hafi verið blindur og með innibyggðan leðurblökuradar í enni sér. Hann þaut frá flugvellinum og í gegnum bæinn á undraverðum hraða beint á áfangastað, þótt hann virtist alls ekki viss um hvert hann ætti að keyra mig þegar hann lagði af stað. Ég hafði reynt að bera fram götunafnið Rue des Tournelles, þegar ég gaf honum fyrirmæli um hvert ég vildi fara en hann sýndi engin merki um að hann skildi mig. Ég rétti honum þá símann minn og skrifaði götunafnið. Hann sá ekkert á símann sama hvað ég stækkaði stafina. Allt í einu rauk hann bara af stað á litlu druslunni sinni; sætin rifin og alls konar vírar héngu út úr mælaborðinu. Ofan af Parísarhimninum féll gífurlegt regn og alla leið frá flugvellinum keyrðum við í gegnum djúpa polla og ausandi úrhelli steyptist yfir okkur en ökumaðurinn virtist ekki þurfa á rúðuþurrkum að halda. Hann rýndi bara einhvern veginn í gegnum regnmóðuna á bílrúðunni og smaug utanum umferðarþvöguna á feykilegum hraða. Ég sá ekkert út. Ég ákvað bara að loka augunum og vona það besta.
Þetta var minn 20. nóvember 2018. En ég legg sem sagt af stað til Kaupmannahafnar með 11:05 lestinni til að hitta þennan ágæta mann með stríðnislegu röddina. Ég hlakka satt að segja til að eiga þennan langa fund með honum og aðstoðarfólki hans. Þetta er bara spennandi.
Bókmenntamoli: Ævintýri Gosa er uppáhaldsbók Patti Smith.